140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:39]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að í fyrsta lagi einkenni það afstöðu mína að þær spurningar sem hér liggja fyrir séu ágætlega merkingarbærar og ágætlega frambærilegar. Ég held að þingmenn almennt geti lýst stuðning við það. Menn kunna kannski í meðförum nefndarinnar að vilja gera einhverjar lítils háttar breytingar á þeim, en ég held að þetta séu bara ósköp einfaldar spurningar á íslensku sem auðvelt sé að svara á íslensku.

Gallinn við beint lýðræði eða eitt af vandamálunum við beint lýðræði er skortur á þátttöku; að of lítill hluti kosningarbærra manna taki þátt í atkvæðagreiðslum um einstök mál. Þess vegna væri sérstakt fagnaðarefni ef þessi atkvæðagreiðsla gæti farið fram samhliða forsetakosningunum en ekki til dæmis í júlímánuði sem er aðalsumarleyfismánuður landsmanna, vegna þess að sú lýðræðis- og lýðveldishátíð sem forsetakosningar jafnan eru mundi tryggja víðtæka þátttöku. Þannig væri (Forseti hringir.) sem breiðastur hópur Íslendinga á bak við þá niðurstöðu sem næst.