140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:41]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst er til að taka að hér er um að ræða skoðanakönnun, eins og til dæmis hefur komið fram hjá hv. þm. Róbert Marshall, en ekki atkvæðagreiðslu eins og þingmaðurinn lætur skína í. Sá fjöldi sem tekur þátt í atkvæðagreiðslunni — það er auðvitað heilmikið álitamál hvað má lesa út úr þeim skilaboðum sem þar munu koma. Það mætti ná fram nákvæmlega sömu niðurstöðu með skoðanakönnun og þeirri aðferðafræði sem lögð er slíkum könnunum til grundvallar.

En ég er ósammála hv. þingmanni um að spurningarnar séu mjög skýrar. Það er alveg rétt að þær eru settar fram á íslensku. Reyndar má gera athugasemdir um málfar. Það er hægt að svara þeim á íslensku af því að bara er boðið upp á já- og nei-svar. En vandinn er sá, frú forseti, þegar spurt er já- og nei-spurningar eins og til dæmis í spurningu þrjú um hvort persónukjör í kosningu til Alþingis eigi að vera heimilað „í meira mæli“, stendur nú hér, en nú er, að augljóst má vera, (Forseti hringir.) að þetta er ekki skýr spurning. Það er ekki hægt (Forseti hringir.) að komast að þeirri niðurstöðu.