140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[16:42]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þarna bendir hv. þingmaður á eitt af vandamálunum við beinar atkvæðagreiðslur sem þessar að þær eru ólíkar því sem gerist í þinginu þar sem hægt er að taka til afgreiðslu eina tillögu sem hefur tiltekin áhrif og taka þá nýja afstöðu út frá málinu svo breyttu. Í þjóðaratkvæðagreiðslu verður aðeins spurt einu sinni. Það er erfitt að spyrja um marga valkosti því að þá er hættan sú að ekki fáist hreinn meiri hluti fyrir neinum einum. Það væri ekkert því til fyrirstöðu til að mynda með persónukjörsspurninguna að fylgja henni síðan eftir með skoðanakönnun þegar fyrir lægi hvort menn vildu ganga lengra eða ekki. Ef niðurstaðan væri sú að menn vildu ganga lengra í persónukjöri en nú er mætti sannarlega kanna í skoðanakönnun, eins og hv. þingmaður bendir á, hvaða valkosti (Forseti hringir.) menn teldu þá vera vænlegasta.