140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú reynir á þjóðarskilninginn og þjóðarviljann vegna þess að hér stendur:

„Já, ég vil að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga.“

Ég skil spurninguna þannig að sá sem segir já við þessu vilji að stjórnarskráin verði svona. Það megi kannski gera smábreytingar með tilliti til laga og alþjóðasamninga en einskis annars. En í tillögu stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir að náttúruauðlindir verði þjóðareign og annað er þarna, persónukjör o.fl. Spurningarnar sem koma á eftir eru því í mótsögn við það sem menn eru búnir að svara þá þegar.

Nú er það svo að það er fjöldi atriða í stjórnarskránni sem eru góð en líka mjög margt sem er varasamt og vafasamt og hvað á hinn almenni kjósandi að gera? Á hann taka hið góða fram yfir það slæma (Forseti hringir.) eða hið slæma fram yfir það góða?