140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:04]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem mér finnst endurspeglast svolítið í þeim spurningum sem hér er verið að leggja til er kannski áhugasvið stjórnarflokkanna. Það kom til dæmis fram í máli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur hvort ekki væri ástæða til að vera með spurningu um framsal á fullveldi í alþjóðasamningum í þessum spurningalista.

Nú er það svo að hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lagt til að spurt verði um áframhald aðildarviðræðnanna við Evrópusambandið. Telur hv. þingmaður að þar væri kannski kominn ákveðinn grunnur að sátt og samvinnu innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að leggja til að spurt verði að því líka?