140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Enn ræðum við breytingar á stjórnarskránni og verð ég að segja að töluvert mikill tími þingsins hefur farið í að ræða mögulegar breytingar á henni. Við höfum að mínu viti komist frekar lítið áleiðis í því og einkum vegna þess að það ferli sem málið hefur verið í hefur verið mjög gloppótt svo ekki sé kveðið sterkar að orði, en það hefur komið fram fyrr í máli mínu um þetta málefni að ég er mikill andstæðingur þeirrar aðferðafræði sem notuð var við allt þetta bix svo ég noti bara það orð.

Nýjasta afurðin í þessu öllu er tillaga til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Um það er búið að ræða töluvert, innganginn að þeirri tillögu, og síðan eru hér nokkrar spurningar. Þegar hafa birst í fjölmiðlum að minnsta kosti athugasemdir varðandi orðalag spurninganna, m.a. frá landskjörstjórn, og ljóst er að það þarf að taka til einhverrar endurskoðunar.

Ég lýsi yfir mikilli undrun á þeirri aðferðafræði sem er viðhöfð en það er svo sem í takt við það sem á undan er gengið að við skulum vera komin á þann stað að fara í einhvers konar skoðanakönnun um hvort Alþingi eigi að leggja fram frumvarp eða ekki og þá hvað eigi meðal annars að vera í því frumvarpi. Ég held að hægt sé að fjalla um þessa tillögu á margan hátt en í þessari atrennu ætla ég að velta því fyrir mér hvers vegna spurt er í 2. tölulið tillögunnar fimm spurninga. Ég hef reyndar ekki heyrt allar ræður stjórnarliða þannig að það sé tekið fram en ég hef ekki enn heyrt neinar skýringar á því hvers vegna í ósköpunum þessar fimm spurningar eru valdar eða settar þarna inn. Ég velti fyrir mér hvers vegna ekki er spurt til dæmis um heilbrigðisþjónustu. Í tillögum stjórnlagaráðs í 23. gr. er talað um heilbrigðisþjónustu. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.“

Af hverju er ekki spurt um hvort menn telji að þeir búi við þessa þjónustu í dag eða hvort þeir vilji hafa hana með þessum hætti. Ég gæti trúað að það væri forvitnilegt að fá svör við slíkum spurningum.

Síðan ætla ég að nefna hér 39. gr. í tillögum stjórnlagaráðs sem fjallar um Alþingi og alþingiskosningar. Þar segir meðal annars að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt og spurt er um það í þessari þingsályktunartillögu en ég velti því þá fyrir mér hvers vegna í ósköpunum ekki er þá spurt um rétt til búsetu, af hverju er ekki spurt um búsetujafnrétti í þessum spurningum fyrst verið er að spyrja um jafnt atkvæðavægi? Af hverju er ekki spurt um rétt til að búa við sömu þjónustu, t.d. heilbrigðisþjónustu eða möguleika til mennta svo eitthvað sé nefnt? Hvers vegna er ekki spurt um það? Hvers vegna er ekki spurt um skiptingu skatttekna hreinlega? Af hverju er verið spyrja um þetta þegar við vitum að meiri hlutinn af tekjum ríkisins verður til úti á landi þar sem skekkjan í atkvæðavæginu er til staðar en hann verður svo eftir á höfuðborgarsvæðinu? Hvers vegna er ekki spurt um þetta?

Mér finnst eins og með spurningum nr. 3 og 4 sé verið að reyna að teyma þá sem mæta og svara inn í einhverja gildru um að hér eigi að verða algjört jafnvægi atkvæða, og ég tek fram að ég er á móti því. Ég held að það búi mikil rök að baki því misvægi sem er og reyndar ætti það að mínu viti að vera meira en minna vegna þess aðstöðumunar sem landsbyggðin býr við gagnvart höfuðborginni, svo ég sé búinn að koma því frá mér.

Síðan ætla ég að nefna til dæmis 67. gr. tillagnanna sem mér finnst mjög mikilvæg. Hún gengur út á það að ekki eigi að vera hægt að fara með mál er varða fjárlög eða lög sem lúta að skuldbindingum, þjóðréttarskuldbindingum varðandi fjárútlát ef má orða það þannig, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Dettur mér þá í hug Icesave. Hefði einhver viljað að við hefðum ekki haft þann möguleika að senda það mál til þjóðarinnar í dag? Það yrði ekki hægt ef þessar tillögur ganga eftir. Hvers vegna er ekki spurt um það í þingsályktunartillögu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar? Á þessu hangir að sjálfsögðu líka spurningin um 26. gr. núverandi stjórnarskrár um málskotsrétt forseta, af hverju er ekki spurt út í það? Vilja menn virkilega að málskotsrétturinn sé tekinn úr sambandi? Maður veltir því fyrir sér hvernig þessar spurningar eru valdar, svo maður gæti nú hófs í orðavali.

Í 111. gr. í tillögum stjórnlagaráðs er fjallað um framsal ríkisvalds. Þær hugmyndir sem þar koma fram hafa töluvert lengi verið ræddar í tengslum við stjórnarskrána og Alþingi, þ.e. að hægt sé að framselja ríkisvald til alþjóðastofnana, svo sem í þágu friðar og efnahagssamvinnu, og er verið að skýra þetta. Þetta er sama hugmynd og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans fyrir aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Þar er einnig eytt svolitlu púðri í að ræða hversu mikilvægt sé að möguleikinn sé til staðar, að hægt sé að gera skuldbindandi samninga án þess að það brjóti í bága við stjórnarskrána. Ég held að þetta megi ekki vera með þessum hætti, ég er á móti því.

Hvers vegna í ósköpunum er ekki þjóðin spurð hvort hún vilji að hægt sé að framselja vald með þeim hætti sem þarna er boðað? Um þetta er ekkert fjallað í tillögum meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Svo hljótum við að velta því fyrir okkur, frú forseti, þegar við skoðum málið í heild, rýnum í tillögur stjórnlagaráðs og veltum fyrir okkur þeim spurningum sem hér eru lagðar fram: Hvers konar stjórnskipun ætlum við að búa við í framhaldinu, hvers konar stjórnskipun eigum við að búa við á Íslandi í nánustu framtíð? Mér sýnist að þær tillögur sem stjórnlagaráð leggur fram og nefndin hefur ekki enn svarað lúti í rauninni að því að á Alþingi og í stjórnmálum landsins verði komið á einhvers konar losaraskap. Þegar ég segi það á ég við að yfirsýn yfir stefnumál verði ekki jafnljós og er í dag og að þingstörfin verði í framhaldinu handahófskenndari en þau eru í dag.

Hef ég þá ekkert fjallað hér um þá liði í þessum tillögum sem klárlega væri tilefni til að spyrja um og lúta að því að styrkja stöðu forsætisráðherra. Þar á meðal er hér afar sérstök tillaga um að vantraust á ráðherra verði ekki borið upp nema í kjölfarið eða í sömu tillögu og fylgi hver eigi að verða eftirmaður ráðherra. Virðulegi forseti. Mér finnst þetta algjörlega galið að verið sé að þrengja með þeim hætti möguleika stjórnarandstöðu á hverjum tíma eða þeirra þingmanna og þeirra stjórnarflokka líka sem kunna að vilja styðja slíkt vantraust að þá þurfi að koma fram nafn eftirmanns.

Það er margt við þetta að athuga og það er í rauninni hægt að fara í gegnum allar þessar 114 tillögur sem settar eru fram af stjórnlagaráðinu og velta fyrir sér hvort hver og ein eigi ekki heima á þeim spurningalista sem hér á að setja fram. Einn ágætur þingmaður kallaði þetta spurningavagn, ef ég heyrði rétt áðan, og vísar þá væntanlega til Gallups. Tek ég undir það, þetta hljómar svolítið eins og slíkt.

Ég vil, frú forseti, að lokum ítreka það að þó svo að mörg okkar hafi efasemdir um þetta ferli allt er það ekki svo að við hin sömu viljum ekki breyta stjórnarskránni sé þess þörf. Ég tel hins vegar ekki ástæðu til að skrifa nýja stjórnarskrá (Forseti hringir.) fyrir Ísland. Þvert á móti.