140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:16]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir afbragðsræðu þar sem hann kom inn á marga fleti sem maður hugsar einmitt um í ljósi þessarar þingsályktunartillögu sem kemur frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Í raun sagði hann í lokin það sem ég ætlaði að spyrja hann um, þ.e. hvort það liggi ekki alveg ljóst fyrir að Framsóknarflokkurinn sé reiðubúinn að fara í ákveðnar breytingar á stjórnarskránni eins og hann hefur sýnt bæði í orðum og athöfnum í gegnum tíðina. Hann vill til að mynda skoða það að sett verði auðlindaákvæði í stjórnarskrá með ákveðnum hætti þar sem líka verði tekið tillit til einkaeignarréttar sem nú þegar er til staðar í landinu. Ég spyr líka hvort Framsóknarflokkurinn sé ekki reiðubúinn í breytingar á því ákvæði sem snertir meðal annars — og hv. þingmaður kom inn á — þjóðaratkvæðagreiðslur og málskotsrétt forsetans.

Það er greinilega ekki vanþörf á að rifja aðeins upp söguna, ég mun koma inn á það í ræðu minni. Framsóknarflokkurinn hefur, eins og aðrir flokkar, komið með markvissum hætti að breytingum á stjórnarskránni og ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að sá hugur fylgi enn máli hjá Framsóknarflokknum að hann vilji breyta stjórnarskránni eins og allir flokkar á þingi.

Ég vil hins vegar spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji stjórnarflokkana hafa reynt nægilega mikið til að ná þeirri mikilvægu samstöðu um stjórnarskrána og breytingar sem þörf er á, ekki síst núna þegar mikil óvissa og ólga er um mörg mál í samfélaginu. Er hann sammála mér í því að betra sé að leita sátta og gefa sér tíma til að það gerist?

Ég er ekki að tala um að tefja málið. Ég er að tala um hvort við hefðum getað náð ákveðinni lendingu í þessum stóru málum sem tengjast málunum sem við höfum rætt í gegnum tíðina, málskotsrétti forsetans, auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar, hvernig við breytum stjórnarskránni — hvort hægt hefði verið með markvissari vinnubrögðum að ná sameiginlegri stjórnmálalegri lendingu í stjórnarskrármálinu.