140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:18]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Framsóknarflokkurinn hefur mjög lengi, ég get reyndar ekki nefnt árafjöldann, verið talsmaður þess að stjórnarskráin þurfi reglulega endurskoðunar við, að eðlilegt sé að endurskoða hana samfara breyttum tímum og slíku. Við höfum á tímum haft forustu í þeirri umræðu og verið í forsvari fyrir nefndir innan þingsins, meðal annars hefur Jón Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður, leitt eina slíka nefnd. Við höfum ályktað um þessi mál á flokksþingum okkar og fjallað um þau í framhaldinu í sérnefndum o.s.frv.

Hv. þingmaður nefndi hér meðal annars auðlindaákvæðið og ég ætla að tala út frá minni eigin skoðun á því. Í ályktunum flokksþings framsóknarmanna er kveðið á um að auðlindirnar skuli vera sameign þjóðarinnar, bara svo að því sé haldið til haga, hvernig sem það er svo skilgreint allt saman. En við viljum jú herða þetta ákvæði í stjórnarskránni.

Ég hef sjálfur haft mikinn áhuga á því að farið verði ítarlega yfir það hvernig dómarar eru skipaðir á Íslandi. Persónulega vil ég að lítið verði hróflað við forsetaembættinu. Það er allt í lagi að endurskoða hluti í því sambandi en mér finnst að málskotsrétturinn eigi að vera til staðar. Ég er líka á móti því að breyta ákvæðinu varðandi þjóðkirkjuna, að finna það einhvern veginn út, þannig að óljóst sé hvers konar kirkjuskipan er á Íslandi, mér finnst það ekki ganga.

Varðandi samstöðuna þá er það bara þannig, frú forseti, að núverandi stjórnarmeirihluta eru algjörlega mislagðar hendur með að ná samstöðu um nokkurt einasta mál sem einhver ágreiningur kann að vera um. (Forseti hringir.) Það hefur verið þeim algjörlega fyrirmunað og hefur ekki verið reynt í þessu máli.