140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held ég geti alveg fullvissað hv. þingmann um að Framsóknarflokkurinn og þingmenn hans munu taka fullan þátt í umræðum um stjórnarskrána í haust eða hvenær sem sú umræða verður á dagskrá. Ég get hins vegar ekki sagt til um það hér og nú hvernig sú umræða mun þróast eða hvernig hún verður. Það kemur væntanlega frá hverjum og einum þingmanni, við höfum ekki rætt um að vera með einhverja eina línu í því. En hv. þingmaður getur verið fullviss um að Framsóknarflokkurinn mun taka fullan þátt í þeirri vinnu og þeirri umræðu.

Varðandi fyrri hluta spurningar hv. þingmanns, er sneri að því hvernig haldið er á þessu stóra máli, verð ég því miður að segja að illa hefur tekist til. Ég og fleiri höfum margoft sagt það í þessum stól að betra sé að hægja aðeins á ferlinu og meta stöðuna og reyna að ná einhverri sátt um það hvernig við stígum næstu skref. Það kann að vera að allir þurfi að brjóta odd af oflæti sínu til að svo verði en að mínu mati er það eini rétti farvegurinn í svona stóru máli að reyna að skapa sátt.

Frú forseti. Ég verð að segja að mér hefur fundist forgangsröðun í málum ríkisstjórnarinnar í þinginu vera mjög sérstök. Við erum búin að eyða miklum tíma, sem er ekkert óeðlilegt eftir hrun eins og hér varð, í að ræða hvað fór úrskeiðis. Það er eðlilegt og gott að við höfum eytt miklum tíma í það. Síðan erum við búin að eyða alveg ótrúlegum tíma í þessar stjórnarskrárbreytingar sem að mínu viti var engin sérstök þörf á, ekki út af því áfalli sem hér dundi yfir, alls ekki. Það hefði verið miklu betra að fara í þær breytingar af meiri yfirvegun frekar en af ákafa til að menn sæju fyrir (Forseti hringir.) endann á öllu ferlinu.