140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:25]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Aðeins í framhaldi af þeim andsvörum sem ég var í hér áðan. Það kom ákveðinn svipur á hv. þm. Gunnar Braga Sveinsson þegar ég spurði hann að því hvort Framsóknarflokkurinn ætlaði ekki að beita sér í umræðu um stjórnarskrána. Það sem ég fékk fram var nákvæmlega það sem alltaf hefur verið skýr stefna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins, stóru stjórnarandstöðuflokkanna nú. Þeir eru reiðubúnir hvenær sem er að fara í breytingar á stjórnarskránni. Þeir hafa sýnt það í verki og meðal annars haft forustu um þá hluti.

Ég tel að ekki sé vanþörf á, þó að ég hafi ekki ætlað mér að gera það, í ljósi þeirra ræðna sem hafa verið haldnar hér, að halda því til haga að það er ekki svo að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki viljað fara í breytingar á stjórnarskránni. Aftur og aftur eru hlutirnir settir fram á þann veg að Sjálfstæðisflokkurinn hafi ekki viljað fara í neinar breytingar á stjórnarskránni í gegnum tíðina. Það er af og frá. Sagan segir miklu meira en innihaldslausir frasar hér í ræðupúltinu sem eiga að vera til vinsælda fallnir í ákveðnum hópum. Sagan sýnir okkur að af 80 greinum stjórnarskrárinnar hefur 43 greinum verið breytt, að mig minnir, og ekki í neinum smávægilegum greinum, ekki í aukaatriðum eða neinu slíku. Það eru reyndar engin aukaatriði í stjórnarskránni því að hún er einföld og skýr. En í gegnum tíðina hafa allir stjórnmálaflokkar tekist á um stór atriði og menn hafa lagt sig fram um að ná samstöðu.

Ég vil sérstaklega líta aftur til ársins 1991 þegar við byrjuðum á því meðal annars að sameina gamalgróið skipulag tveggja deilda hér á þingi og ýmislegt fleira. Menn fóru í mjög miklar breytingar 1995 á mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og sömdu í raun nýjan kafla. Það var gert að vel ígrunduðu máli þar sem menn úr öllum flokkum höfðu sitt að segja, það var hlustað og menn lögðu sig fram um að ná fram mikilsverðum breytingum sem eru nú í stjórnarskránni og tengjast mannréttindum Íslendinga. Síðast en ekki síst voru gerðar mikilvægar breytingar, sem menn vilja í raun ekki draga fram, á kjördæmaskipaninni. Það er meira en að segja það. Menn eru hér að tala um að ekki megi breyta neinu af því að, eins og einhver orðaði það hér í dag, úr því verði einhver kjördæmapólitík. Kjördæmapólitíkin náði þó ekki lengra en það árið 1999 að samþykktar voru mjög miklar breytingar á kjördæmaskipaninni.

Allt þetta þýðir að sá sem er í forustu fyrir landsmálunum hverju sinni þarf að leggja sig fram um að ná sátt og samkomulagi um þann dýrmæta grip sem stjórnarskráin er. Það hafa forustumenn ríkisstjórna Íslands í gegnum tíðina lagt sig fram um að gera þar til í dag, að mínu mati. Ég tel þetta ranga leið og hef margoft sagt það. Með því er ég alls ekki að segja, eins og menn segja alltaf þegar við sjálfstæðismenn segjum að við viljum ekki fara leið stjórnlagaþingsins, -ráðsins eða hvað það hét að lokum, að við viljum ekki breytingar heldur viljum við þverpólitíska samstöðu og samvinnu um málið. Það hefur nefnilega gefist vel í gegnum tíðina hvað sem menn vilja segja.

Menn hafa meðal annars nefnt Jón Kristjánsson sem lagði sig fram um það árið 2005, að mig minnir, að koma til móts við þáverandi stjórnarandstöðu — reyndar tvo fulltrúar sem nú sitja í ríkisstjórn Íslands — sem heimtaði þá að stjórnarandstaðan í þeirri stjórnskipunarnefnd hefði neitunarvald. Það var farið fram á það, tók reyndar lengri tíma en að sjálfsögðu var komið til móts við þá kröfu.

Breytingar er varða auðlindaákvæði í stjórnarskránni er að mínu mati stórt og mikið mál og hefur lengi verið hitamál meðal þjóðarinnar. Það mál þarf að leiða til lykta, þannig að það sé sagt hér. Að mínu mati er stærsta ástæðan fyrir því að það mál var ekki samþykkt sú að þeir fulltrúar sem voru í stjórnarskrárnefnd árið 2005 og 2006 voru ekki með hugann við auðlindaákvæði stjórnarskrár. Þeir voru fyrst og fremst með hugann við það að passa upp á að við málskotsrétti forsetans yrði ekki hreyft því að þeir töldu að í ljósi þess sem gerðist vegna fjölmiðlalaganna 2004 væri það ákvæði svo brýnt að því fyrirkomulagi mætti ekki breyta.

Mætir menn og vísir, sem voru í þeirri nefnd sem hafði það hlutverk að koma fram með tillögur um stjórnarskrána, segja mér að ekki hafi verið mikil vinna eftir. Mér finnst því sorglegt að menn fari þá fjallabaksleið sem nú er verið að reyna að fara til að breyta stjórnarskránni.

Aðferðafræðin í þessu máli öllu snertir það sem enginn má segja hér. Það er þá best að ég segi það: Þetta snýst um líf ríkisstjórnarinnar, þetta snýst ekki um að fá betri stjórnarskrá. Þetta snýst um að halda ríkisstjórninni gangandi út þetta kjörtímabil og hún hefur fengið Hreyfinguna til liðs við sig í þeim efnum.

Við skulum aðeins skoða þessa þingsályktunartillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs. Margir hafa farið mjög vel yfir það um hvað er raunverulega verið að spyrja. Ég þakka því aftur hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir það hve skýrt hann talaði. Hann var fyrsti þingmaðurinn að mínu mati, alla vega gerðu stjórnarliðar það ekki, sem talaði mjög skýrt um sýn sína á því hverju ætti að breyta og hverju ekki í stjórnarskránni.

Ég spurði meðal annars framsögumann, hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur, um ákvæði sem tengist hugsanlegu fullveldisframsali vegna alþjóðasambanda. Hvort sem menn hafa verið fylgjandi inngöngu í ESB eða ekki hafa þeir verið sammála um að setja þurfi ákvæði í stjórnarskrá um málsmeðferð og þjóðaratkvæðagreiðslu þegar og ef að ákvörðun um aðild Íslands að slíkum alþjóðasamtökum kemur. Ég hélt að menn væru sammála um það, en það var alveg ljóst af því svari sem kom fram í andsvari fyrr í dag að stjórnarflokkarnir eru hræddir við að leggja slíkt ákvæði fram.

Menn hefðu betur setið fund í hádeginu þegar Norðmenn fóru yfir skýrslu sem nefnd hefur verið EES-samningurinn — Innan eða utan Evrópusambandsins? þar sem dregið var sérstaklega fram að lýðræðishallinn var mikill 1992 þegar ákveðið var að ganga að EES-samningnum. Fyrirkomulagið í Noregi er með öðrum hætti en hér. Menn áttuðu sig á því að við vorum á ystu brún með að hrófla við stjórnarskránni þegar við samþykktum EES-samninginn. Þá bentu vísir menn og mætir okkur á að það stangaðist ekki á við stjórnarskrána, en að það væri tæpt. Það er ljóst að síðan þá hefur lýðræðishallinn aukist enn frekar. Þess vegna undrast ég mjög að menn skuli ekki hafa tekið þennan þátt inn í þær spurningar sem lagðar eru fram. Ég hef ekki fengið upplýst í þessari umræðu af hálfu þeirra sem sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hvaða umræða var um þessar spurningar þar. (Gripið fram í.) Hér kallar fulltrúi úr stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að engin umræða hafi farið fram. Segir það ekki ansi mikið um málið? Það var búið að ákveða í bakherbergjum hvaða spurningar mætti setja fram, hvaða spurningar væru of viðkvæmar fyrir stjórnarsamstarfið, af því að stjórnin má jú ekki falla, og hvaða spurningar mætti alls ekki setja fram til að þjóðin gæti tekið afstöðu til ákveðinna þátta.

Ég velti fyrir mér ákvæðinu um þjóðkirkju Íslendinga. Í tillögum stjórnlagaráðs er talað um að kirkjuskipanin haldist. Ég hefði allt eins viljað tillögu með öðru orðalagi, hvort íslenskt stjórnskipan ætti ekki að byggjast á kristilegum kærleika. Ég er viss um að þjóðin mundi samþykkja það og vilja undirstrika það. Ég er ósammála því að farið verði í breytingar að óathuguðu máli varðandi aðskilnað ríkis og kirkju. Rétt er að draga það fram að ég er ekki í þjóðkirkjunni þannig að mér finnst ég geta um frjálst höfuð strokið þegar ég tjái mig um þetta mál. Það skiptir mig máli að við Íslendingar þorum að segja að við séum þjóð sem byggir á kristilegum kærleika og því siðgæði sem kristnin hefur fram til þessa kennt okkur og hefur nýst okkur vel.

Einnig má draga fram ýmsa aðra þætti — ég sé að tími minn er að klárast — eins og þann að greinilegt er að ekki er samstaða milli stjórnarflokkanna um þetta mál. Ég bendi á að hæstv. innanríkisráðherra Ögmundur Jónasson segist ekki ætla að samþykkja málið eins og það er lagt upp hér vegna þess að, að hans mati, vantar eina spurningu. (Forseti hringir.) Þetta er bara dæmi um að málið er ekki fullbúið. Við hefðum betur rætt hvernig stjórnarskrá við viljum, (Forseti hringir.) haft skoðanir á því og leitt málið í þann farveg að sem flestir gætu verið sáttir við slíkar breytingar.

(Forseti (ÞBack): Forseti biður hv. þingmenn um að virða ræðutíma.)