140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:46]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það er þyngra en tárum taki að vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar á þessu kjörtímabili hefur verið ein samfelld sorgarsaga. Alveg frá því að byrjað var að vinna að henni hefur hvert vandræðamálið rekið annað. Við munum að ætlunin var að setja hér á laggirnar sérstakt stjórnlagaþing. Allir muna hvernig til tókst í þeim efnum. Nú má auðvitað segja mjög margt um þær kosningar í sjálfu sér, hvernig samtvinnaðar voru í eitraða blöndu hugmyndirnar um jafnt vægi atkvæða, persónubundið kjör og landið eitt kjördæmi. En aðalatriðið er þó að niðurstaða alls þessa var að stjórnlagaþingskosningin var dæmd ógild. Við munum öll hvernig uppi varð fótur og fit og ætlunin var að reyna að bjarga sér einhvern veginn fyrir horn, komast í raun fram hjá dómi Hæstaréttar með því að setja á laggirnar þennan hóp manna sem í raun og veru er ekki annað en nefnd sem skipuð er af Alþingi eða kosin af Alþingi með sérstökum hætti. Síðan tók við næsti fasi sem var starf þessarar nefndar sem þingaði um einhverra mánaða skeið og lagði síðan afurð sína á borð fyrir okkur. Hæstv. forsætisráðherra kaus þá að gefa þá yfirlýsingu að sú tillaga ætti síðan að fara fyrir þjóðina. Með þeirri yfirlýsingu var hæstv. forsætisráðherra og fylgifiskar föst í eigin neti. Þess vegna hefur orðið allur þessi vandræðagangur sem við höfum orðið vitni að upp á síðkastið, það þurfti að fullnusta yfirlýsinguna um að koma málinu til þjóðarinnar með einhverjum hætti, eins og er viðleitni til að gera í þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Síðan er hitt að efnisleg afstaða til málsins liggur einfaldlega ekki fyrir. Hún liggur til að mynda ekki fyrir af hálfu meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem leggur ekkert mat á það sem hér hefur verið lagt á borð. Það eina sem við vitum er að uppi eru miklir fyrirvarar um ýmis stór mál varðandi stjórnarskrána eins og hún liggur fyrir í tillöguformi frá stjórnlagaráðinu.

Vatnaskil í umræðunni urðu 1. október síðastliðinn þegar forseti Íslands flutti ræðu sína úr þessum ræðustóli og lýsti skilningi sínum, ekki bara sem forseti Íslands, heldur sem gamalreyndur fræðimaður á þessu sviði, fyrsti prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands sem hefur skrifað bækur um þessi mál sem við kunnum að hafa ýmsar skoðanir á. En hann flutti í krafti reynslu sinnar og akademískrar þekkingar mikla ræðu um að með tillögum stjórnlagaráðsins væri í raun og veru verið að styrkja vald forsetaembættisins. Allir muna að hér varð uppi fótur og fit. Þeir sem telja að forseti Íslands hafi unnið sér sitthvað til óhelgis með afskiptum sínum af Icesave-málinu urðu auðvitað ekki mjög ánægðir.

Þess vegna erum við núna komin í þá einkennilegu stöðu að verið er að leggja fram tillögu til þingsályktunar með spurningum til þjóðarinnar sem lúta annars vegar að tillögum stjórnlagaráðs og hins vegar er búið að handvelja úr spurningar að ósk meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem þjóðinni er ætlað að svara. Þetta er auðvitað orðinn fullkominn bastarður. Og alveg sérstaklega í ljósi þess að við sjáum að þessar spurningar standast ekki lágmarkskröfur sem gerðar eru til slíkra spurninga. Ef svona spurningar væru reiddar fram í prófaúrlausn á fyrsta ári í fyrsta kúrsi í aðferðafræði í menntaskóla, fengi sá sem legði þær fram falleinkunnina 0,0. Það er enda álit þeirra sem hafa skoðað þessi mál og eru sérfræðingar á þessu sviði. Þeim er mætavel ljóst að þessar spurningar eru algjörlega óbrúklegar. Meira að segja þeir sem lögðu þessar tillögur fram og hafa kynnt þær hér á sérstöku þingskjali, eru núna eftir á búnir að átta sig á þessu, en það er of seint að iðrast eftir dauðann.

Nú vita allir að þær spurningar sem meiri hluti nefndarinnar eftir margra mánaða yfirlegu og umhugsun komst að niðurstöðu um, standast ekki lágmarkskröfur og menn mundu fá 0,0 fyrir í fyrsta áfanga í fyrsta bekk í menntaskóla. Þetta eru spurningarnar sem á að leggja á borð fyrir þjóðina og við erum hér að tala um sjálfa stjórnarskrá Íslands — sjálfa stjórnarskrá Íslands. Það er ekki verið að spyrja um afstöðu manna til hundahalds í þéttbýli heldur afstöðu manna til stjórnarskrár Íslands. Þetta er auðvitað ekki boðlegt. Þetta er til vansæmdar fyrir þá sem að þessu máli hafa staðið.

Í fyrstu spurningunni er til dæmis spurt hvort náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign. Hvað þýðir þetta? Hvað þýðir þetta í raun og veru? Hv. formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar reyndi að túlka þetta og sagði sem svo að það bæri að hafa í huga eða skilja einhvern veginn þannig eða styðjast við — ég man ekki hvernig orðalagið var nákvæmlega — það sem stæði í tillögum stjórnlagaráðsins. Kemur það fram í spurningunum? Þessar spurningar standa auðvitað sjálfstætt, þetta eru sjálfstæðar spurningar sem fólk á að taka afstöðu til.

Nú er ég til dæmis þeirrar skoðunar að ríkið, þjóðin eða almenningur eigi fiskimiðin þótt við úthlutum síðan nýtingarrétti til útgerðanna gegn gjaldi. En er ég þá tilbúinn til að segja já við þessari spurningu? Ég get það ekki. Með því að segja já, ef ég les þetta bókstaflega og spurningin stendur sjálfstætt sem hún gerir, væri ég með jáyrði mínu að segja að ég vildi láta þjóðnýta þær náttúruauðlindir sem núna eru í einkaeigu. Ég er ekki tilbúinn til þess. Ef menn svara þessari sjálfstæðu spurningu játandi eru þeir auðvitað að lýsa yfir stuðningi við það. Þetta er svo sem gömul pólitísk hugmynd sem til að mynda Alþýðuflokkurinn fór með um landið á sínum tíma, þannig að þetta er ekki alveg óþekkt hugmynd. En þetta er grundvallaratriði. Landssamband landeigenda hefur til dæmis sent okkur ýmsum þingmönnum og formönnum þingflokkanna athyglisverðar ábendingar í þessum efnum sem ég held að væri full ástæða fyrir hv. nefnd að velta fyrir sér. Þeir benda á að þetta fyrirkomulag stangist á við lög og núverandi stjórnarskrá, og stangist auðvitað á við eignarréttarákvæði íslensku stjórnarskrárinnar.

Þetta er því allt saman hið vandræðalegasta mál. Nú er svo komið að þeir miklu spekingar sem bjuggu til þessar vitlausu spurningar eru komnir í þá stöðu að þurfa fyrirsjáanlega að bakka með málið allt saman meira og minna.

Í þriðju spurningu er síðan spurt, eins og margoft hefur verið vakin athygli á í þessari umræðu, hvort menn vilji heimila persónukjör í kosningum til Alþingis í meira mæli en nú er. Þetta er algjörlega óskiljanleg spurning, gjörsamlega óskiljanleg. Ég held jafnvel að fallistarnir úr fyrsta áfanga í fyrsta bekk menntaskólans hefðu ekki einu sinni látið sér detta í hug að búa til svona vitlausa spurningu ef þeir hefðu átt að búa til spurningar af þessu taginu í aðferðafræðiprófinu sínu. Persónukjör í kosningum til Alþingis í meira mæli en nú er. Hversu miklum meiri mæli? Því er auðvitað ekki svarað. Út úr þessum spurningum kemur þannig eitthvert dellumakarí sem getur ekki orðið grundvöllur að nokkurri endurskoðun á nokkurri stjórnarskrá, allra síst stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Við hljótum að bera meiri virðingu fyrir sjálfum okkur og meiri virðingu fyrir stjórnskipun okkar og stjórnarskrá en svo að við látum okkur detta í hug að vaða af stað að óhugsuðu máli og án þess að leita nokkurs staðar ráða í þessum efnum. Var það virkilega þannig að meiri hluti þessarar nefndar var svo stoltur og sjálfumglaður að hann taldi sig ekki þurfa að spyrja einfaldra spurninga um það hvernig ætti að búa til svona spurningar?

Síðan er allt þetta mál í skötulíki gert. Hugmyndin er að bera spurningarnar fram í tengslum við forsetakosningarnar sem er auðvitað algjörlega óeðlilegt og mundi skapa margs konar ruglanda, draga athyglina frá sjálfri (Forseti hringir.) kosningunni um forseta Íslands, og er auðvitað virðingarleysi við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.