140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[17:57]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa ræðu þar sem drepið var á mestu deilumálin sem felast í þessari þingsályktunartillögu.

Það vill þannig til að ég sit í hinni svokölluðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og hef setið þar og hlustað á fræðinga sem hafa komið fyrir nefndina í allan vetur. Þessir sérstöku stjórnskipunarfræðingar á sviði auðlindaréttar og umhverfisréttar sem dæmi, hafa hvatt okkur þingmenn til að taka málið inn í þingið því að þar á það heima. Alþingi fer með stjórnskipunarvaldið. Það getur enginn breytt stjórnarskrá nema þingmenn sjálfir. Við þingmenn allir 63 erum þjóðkjörnir og eins og allir vita fara alþingiskosningar fram á fjögurra ára fresti samkvæmt lögum þó að til séu undantekningar á því.

Mig langar því til að spyrja þingmanninn. Úr því að málið er komið í þetta tafaferli, enn eitt tafaferlið, er eins og meiri hlutinn vilji ekki breyta stjórnarskránni vegna þess að hann keppist við að koma málinu út úr þinginu, fyrst með stjórnlagaráðinu sem síðan var dæmt ógilt eins og þingmaðurinn fór yfir. Fyndist hv. þingmanni ekki rétt, úr því verið er að göslast með þetta áfram, að að minnsta kosti væri litið til þess að spurningarnar fimm sem spurt er um væru teknar orðréttar upp úr tillögum stjórnlagaráðsins? Að gengið væri til kosninga um það hvort fólk vilji þær eða ekki, eins og t.d. tillögur stjórnlagaráðs um náttúruauðlindaákvæði og persónukjör, þær yrðu hreinlega bornar upp í þjóðaratkvæðagreiðslu, en ekki að spurningarnar væru svona almennt orðaðar eins og gert er ráð fyrir í þingsályktunartillögunni? Það veit enginn um hvað málið snýst raunverulega, ekki stjórnlagaráðsfulltrúar sjálfir, vegna þess að þetta er svo almennt orðað og er alls ekki í takt við það sem boðuð þjóðaratkvæðagreiðsla er, (Forseti hringir.) eins og ríkisstjórnarflokkarnir kalla hana (Forseti hringir.) að þetta sé þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögu stjórnlagaráðs.