140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:03]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður er að benda á er til marks um það hversu mótsagnakennt þetta mál er allt orðið. Ég held að þar megi segja að „miklu veldur sá er upphafinu veldur“ og „ill var þeirra fyrsta ganga“.

Í gegnum áratugina höfum við alltaf reynt að vinna að endurskoðun stjórnarskrárinnar með þeim hætti að skapa um það sem mesta og víðtækasta sátt. Og það er ekkert að ástæðulausu sem það er gert. Við erum hér með stjórnarskrána undir og við þurfum að tryggja að sátt sé í samfélaginu um þau grundvallarlög sem samfélagið sjálft er reist á, og stjórnarskráin er einmitt slík lög.

Það er að vísu galli á því fyrirkomulagi að því leytinu að það hefur gert það að verkum að ýmislegt sem við hefðum viljað vera búin að endurskoða í stjórnarskránni hefur ekki tekist vegna þess að það má segja að menn hafi haft eins konar neitunarvald í þeim efnum. Átakanlegast í því sambandi er auðvitað sú vinna sem fór fram árið 2007 og var komin nánast á endastöð, sérstaklega varðandi auðlindakaflann sem hefði verið mjög mikilvægt að gera breytingar á. Það hefði að mínu mati leyst okkur undan margvíslegum vanda sem við höfum staðið frammi fyrir í umræðunni um þessi mál ef við hefðum borið gæfu til að ljúka því árið 2007.

Hvað kom í veg fyrir það? Það voru pólitískar vendingar. Það var bara þannig að Samfylkingin og Vinstri grænir bundust sammælum um að hleypa engum breytingum á stjórnarskránni í gegn af því að þá voru líka undir hugmyndir um að taka á málum sem sneru að forsetaembættinu. Þeir voru á þeim tíma sérstakir vinir Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, vegna þess að hann hafði, eins og allir vita, synjað fjölmiðlalögunum staðfestingar. Þarna á það við eins og oft áður „að skamma stund verður hönd höggi fegin“. (Forseti hringir.) Ég hygg að núna iðrist þeir fárra hluta jafnmikið og þess að hafa farið í þetta frumhlaup á sínum tíma (Forseti hringir.) og komið í veg fyrir endurskoðun stjórnarskrárinnar. En þar með hefðu þeir leyst úr miklum vanda.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill enn og aftur biðja hv. þingmenn um að gæta að ræðutíma.)