140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er nefnilega mjög mikilvægur punktur sem hv. þingmaður kemur inn á. Það er hægt að breyta stjórnarskránni og það í sátt. Og það er rétt að draga það fram að árið 2007 munaði mjög litlu að hægt hefði verið að samþykkja breytingar á stjórnarskrá, ekki síst í ljósi þeirrar umræðu sem hafði farið fram í tengslum við umræðu um fiskveiðistjórnarmál, þjóðlendumál o.fl.

Það er mikilvægt atriði sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson dregur hér fram að menn hafa einfaldlega ekki verið að nýta tækifærin. Stjórnarmeirihlutinn hefur ekki verið að hlusta. Menn hafa ekki hlustað eftir því sem meðal annars við sjálfstæðismenn höfum sagt — og ég heyri ekki betur en að framsóknarmenn séu sammála því — að við höfum lengi verið tilbúin til að nálgast þessi kjarnaatriði sem er þýðingarmikið að sett verði með sómasamlegum hætti inn í stjórnarskrá.

Það má segja að þrjú ár hafi farið til spillis hjá ríkisstjórninni. Svo kemur hún núna á lokasprettinum, í hlandspreng fyrir 30. mars, með breytingar á þessum greinum og tillögu um þjóðaratkvæðagreiðslu til að hægt verði að bera þetta upp samhliða forsetakjöri. Er sómi að þessu? Er sómi að þessari nálgun varðandi stjórnarskrána? Ég segi nei.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Í ljósi þeirrar umræðu sem orðið hefur um þessi kjarnaatriði, sem ég trúi að flestir séu sammála um að þurfi að fara vel yfir, telur hv. þingmaður að hægt verði að fara með ábyrgum hætti í gegnum þá umræðu næsta vetur miðað við hver nálgun ríkisstjórnarinnar hefur verið í þessu máli fram til þessa á yfirstandandi kjörtímabili?