140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:25]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir ræðu hans. Það hefur oft komið fram í málflutningi hans að hann er mikill stjórnarskrársinni. Þess vegna langar mig að spyrja út í síðasta punktinn sem hann fór yfir í ræðunni hvert álit hans er á eftirfarandi:

Samkvæmt tillögum stjórnlagaráðs felst mikið framsal á stjórnarskipunarlagasetningarvaldi inn í almenna lagasetningu eins og þingmaðurinn fór yfir. Hann minntist á að lagaframsalsákvæði væru í 86 greinum þeirrar skýrslu sem liggur fyrir þinginu. Nú hefur það verið þannig að þegar Alþingi setur almenn lög hefur lagasetningarvaldið verið framselt inn í reglugerðarvaldið og þar með komið inn í embættismannakerfið. Finnst þingmanninum það ekki stórhættulegt að í tillögum stjórnlagaráðs skuli vera kveðið á um svo víðtækt framsal á stjórnskipunarvaldi þingsins?

Mín skoðun er sú að það á að vera erfitt að breyta stjórnarskrá. Löggjafinn eins og hann er, skipaður 63 þingmönnum, er alls ekki stjórnskipunarvaldið vegna þess að það þarf tvö þing með endurnýjun á milli í kosningum, og síðan sú kratavæðing sem hefur átt sér stað í lagasafninu undanfarin ár að framselja svo lagasetningarvaldið niður í reglugerðirnar. Getur þingmaðurinn verið sammála mér um það að þarna sé um mjög hættulega braut að ræða og er þetta ekki einmitt til að veikja mjög í fyrsta lagi stjórnskipunarvaldið og í öðru lagi stjórnarskrána? Og svo eins og þingmaðurinn benti á, hvað gerist ef Alþingi setur ekki þau lög sem kveðið er á um í þessum tillögum, þ.e. verði eitthvað unnið áfram með tillögurnar?