140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:29]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þarna liggur hundurinn einmitt grafinn vegna þess að stjórnarskrá hvers ríkis er til þess gerð að vernda réttindi borgaranna fyrir ægivaldi ríkisvaldsins, fyrir mistæku framkvæmdarvaldi, t.d. eins og því sem við sitjum uppi með núna o.s.frv.

Segjum sem svo að ef samþykkt yrði að fara þessa leið með stjórnarskrá Íslands, að útþynna stjórnskipunarvaldið, hvað gerðist ef kæmi einræðisherra? Þá mundi viðkomandi náttúrlega koma fyrst í gegnum lagasetningu breytingum á stjórnarskránni og svo í gegnum reglugerðarfargan með ákvæði í þeim lögum til að ná hér völdum og hafa réttindi borgaranna að engu. Þess vegna undrast ég það svo mjög, án þess að ég sé nokkuð að hnýta í þá aðila sem sátu í stjórnlagaráði, hvers vegna þeir hafi ekki áttað sig á þessu framsali og hvers vegna þetta er lagt til í öllum þeim greinum sem eru í þessu frumvarpi. En þetta er kannski ástæðan fyrir því að enginn þingmaður treystir sér til að leggja fram frumvarp með tillögu stjórnlagaráðs, líka vegna þess að tillögurnar hafa fengið svo mikla gagnrýni hjá þeim fræðingum sem hafa komið fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að ég lagði fram þá spurningu á nefndarfundi í gær hvað það væru aftur margir sem hafa getað mælt með tillögunum og það mundi enginn eitt nafn. Það segir sína sögu.

Þá ætla ég að koma að spurningunni, sem mér finnst mjög alvarleg, og hefur líka komið fram fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd því að þeir þingmenn sem ekki sitja í henni hafa ekki fengið að fjalla neitt um þessar tillögur. Ég hef ítrekað óskað eftir því að komið væri með ábendingu um sambærilegt ákvæði sem hafi gerst í nágrannalöndunum eða öðrum löndum, hvort það væri þannig að mál væri sent í þjóðaratkvæðagreiðslu sem ætti svo eftir að taka breytingum eftir að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi farið fram eins og hér stendur í 1. tölulið, (Forseti hringir.) að það eigi að breyta þessu með tilliti til laga og alþjóðasamninga. Það hefur enginn getað bent á það og hvað finnst þingmanninum um það?