140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:31]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Í tillögum stjórnlagaráðs er margt gott. Þar er líka margt sem mætti betur fara og er ekkert voðalega erfitt að leiðrétta. Það er engin goðgá að breyta til dæmis þessum hugmyndum frá stjórnlagaráði þannig að þær verði ákveðnar og þurfi ekki lagasetningu til, það er enginn vandi að gera það. Ég hef lagt til í umsögn minni breytingar á öllum þessum ákvæðum þannig að það sé uppfyllt. Það má laga þetta allt saman.

Vandinn er sá að núna stendur til að senda þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu, hálfhráa stjórnarskrá sem gæti verið að þjóðin felldi, og mjög líklega, vegna þess hversu hrátt hún er unnin og hvað margt er að í henni, t.d. það sem hér hefur verið nefnt um auðlindaákvæðið og nefnt hefur verið framsal á ríkisvaldi og annað slíkt sem menn geta verið á móti. Þannig gæti góðum hugmyndum frá stjórnlagaráði verið hafnað. Mér finnst menn vera að leika sér að eldinum, (Gripið fram í.) eyðileggja góðar hugmyndir með því að senda þær í þjóðaratkvæðagreiðslu. Og ef þær skyldu verða samþykktar þá tekur ekki betra við vegna þess að annaðhvort þyrfti nýtt þing, þegar það kemur saman, að samþykkja þær tillögur eins og þær eru. Eins og bent hefur verið á bæði af fræðimönnum og öðrum og ég geri í minni umsögn er heilmikið að en það má ekki laga nema fara þá gegn vilja kjósenda.

Mér finnst menn vera komnir út á mjög hála braut með því að senda þetta í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það sem menn senda í þjóðaratkvæðagreiðslu þarf að vera vel útfært, búið að fara í gegnum það, lúslesa það, taka úr því allar villur og þá getur þjóðin greitt um það atkvæði með ákveðnum hætti. (Gripið fram í.)