140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:33]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.

Það hefur komið fram í umræðunni að ástæða þess meðal annars að haldið var í þann leiðangur að endurskoða stjórnarskrána var sú að sjálfsmynd þjóðarinnar hafði beðið hnekki í hruninu og endurreisa þyrfti og byggja upp á nýtt sjálfsmynd þjóðar. En uppbygging sjálfsmyndar þjóðar hlýtur fyrst og síðast að taka á umræðunni um það hvað við viljum leggja til grundvallar hvað varðar gildi, dyggðir og siðferðisleg viðhorf. Stjórnarskráin sem grundvallarlög sem öll önnur lög íslensks samfélags eiga að byggja á hlýtur að vera sáttmáli samfélagsins og um þann sáttmála þarf að ríkja sátt.

Alþingi lagði upp með ákveðið ferli, með þjóðfund, með stjórnlaganefnd, síðan var skipað 25 manna stjórnlagaráð sem átti að endurskoða stjórnarskrána. En var það gert, frú forseti? Nei. Stjórnarskráin var endurskrifuð. Það er ekki ein einasta grein í tillögu stjórnlagaráðs sem er samhljóða orðrétt þeim greinum sem eru í núgildandi stjórnarskrá Íslands. Í mínum huga heitir þetta að endurrita en ekki að endurskoða. Endurritun á þennan hátt á gildandi stjórnarskrá íslensku þjóðarinnar hlýtur að kalla á miklu meiri umræðu en nokkurn tíma hefur farið fram. Af hverju hafa ekki verið haldin málþing vítt og breitt af hinum og þessum um stjórnarskrána til að kalla að umræðunni fólkið í landinu sem hefur áhuga?

Menn ræða um að þær spurningar sem þessi þingsályktunartillaga leggur til séu samtal við þjóðina. Mér þykir það harla lítið samtal að ætla að leggja sex spurningar fyrir þjóðina og kalla það samtal þegar spurningarnar eru þar að auki þannig að þær kalla ekki fram vilja þjóðarinnar eða vilja kjósenda. Þjóðin er þeir sem byggja þetta land og enn eru nokkrir sem ekki hafa kosningarrétt en eru engu að síður hluti þjóðar. Það væri því nær að tala um að eiga samtal við atkvæðisbæra kjósendur um það sem hér er á ferðinni frekar en að kalla þetta samtal við þjóðina.

Frú forseti. Hafa drög þau sem fyrir liggja frá stjórnlagaráði verið lesin saman við önnur gildandi lög í samfélaginu eða mun slík endurritun stjórnarskrárinnar kalla á endurgerð allra laga? Ég ítreka að stjórnarskráin var ekki endurskoðuð, hún var endurrituð og það er tvennt ólíkt.

Umræðan hefur líka um tíma verið vanstillt í þá veru að þeir sem ekki eru sammála því sem hér liggur fyrir þori ekki að eiga samtal við þjóðina eða þá að þeir vilji ekki breyta neinu nema þeir ráði sjálfir í hverju breytingarnar eru fólgnar. Slík umræða á svo vanstilltum nótum um stjórnarskrána á ekki heima í þessum þingsal.

Þær spurningar sem hér liggja fyrir og á að leggja fyrir þjóðina, og eru það umræðuefni sem ég er að ræða, eru að mínu mati með þeim hætti — og hef ég hingað til, frú forseti, talið mig þokkalega læsa á íslenska tungu — að ég á erfitt með að svara þeim já eða nei. Ég átta mig hreinlega ekki á því hvað er fólgið í sumum þeirra. Ég ætla ekki að taka afstöðu til þess hvort tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga. Ég veit bara ekki, þegar ég segi já við þeirri spurningu, ef ske kynni að fólk segði já við þessu, hvernig stjórnarskráin liti þá út. Og hvernig í veröldinni á fólk að geta sagt já við einhverju sem er hitt og þetta ef það veit aldeilis ekki hvað hitt og þetta er? Fólk getur ekki heldur sagt: Ég vil ekki að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem — jú, fólk gæti tekið afstöðu til þess, ég vil ekki að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram sem frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Fólk getur sagt já eða nei við þessari spurningu. Það er einfalt vegna þess að stjórnlagaráð endurritaði stjórnarskrána. En ég efast um, þó að ég beri virðingu fyrir kjósendum í þessu landi, að allir þeir sem að kjörborðinu ganga hafi lesið niðurstöðu stjórnlagaráðs.

Komum þá að þeim spurningum sem áætlað er að svara. Í mínum huga er það ljóst að þetta hefur ekki verið samlesið öðrum lögum og fyrsta spurningin, náttúruauðlindir lýstar þjóðareign — hv. formaður nefndarinnar sagði að allir Íslendingar gætu skilið þetta nema hugsanlega lögfræðingar. Ég er ekki lögfræðingur, frú forseti, en ég skil ekki hvað átt er við að öðru leyti en því að allar náttúruauðlindir sem til eru í þessu landi verði þá lýstar þjóðareign, alveg sama hvort þær eru í dag í þjóðareign, í eigu ríkisins, í eigu sveitarfélaga eða í eigu einkaaðila, allar eigi að vera lýstar þjóðareign. Þannig hljóðar spurningin. Það þýðir ekkert fyrir þá sem eru í þeirri ágætu nefnd sem leggur þetta til, eða þá fulltrúa sem hér eiga hlut að máli, að segja að það eigi að skilja þetta með öðrum hætti. Spyrjum þá spurningarinnar eins og við viljum hafa hana, hvaða auðlindir það eru sem eiga að vera lýstar þjóðareign, eða lýsum því yfir að við ætlum að þjóðnýta allar náttúruauðlindir landsins. Það er þá bara heiðarlegt að segja það og það kemur mér ekkert á óvart. Þar sem meginþorri þeirra sem sitja í núverandi ríkisstjórn — fyrirgefið næstu setningu — eru gamlir kommúnistar er ekkert skrýtið að þeir vilji þjóðnýta náttúruauðlindirnar. En ég vil það ekki, hvorki sem fyrrverandi krati né núverandi sjálfstæðismaður. Það gengur ekki upp.

Ákvæðið um þjóðkirkju Íslendinga óbreytt frá því sem nú er? Landskjörstjórn segir að þessi spurning sé neikvæð og leiðandi og vill að henni verði breytt. Persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meiri mæli, ætti að standa, en nú er? En þá hvernig? Hver vill ekki meira persónukjör í kosningum? En hvernig? Er það þá duttlungum háð hvernig þeim sem síðan fjalla um stjórnarskrána líst á og hvernig þeir vilja framkvæma persónukjör? Ákvæði um atkvæði kjósenda alls staðar af landinu vegi jafnt? Ég er þeirrar skoðunar en þá þarf heldur betur að skoða kjördæmaskipan landsins. Með því að vægi kjósenda alls staðar af landinu verði jafnt sýnist mér að þrjú stærstu kjördæmin á höfuðborgarsvæðinu muni vega ansi þungt hvort heldur við fjölgum eða fækkum þingmönnum.

Frú forseti. Það sem liggur fyrir þinginu til samþykkta til að fara með í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu er fátæklegt og þetta er okkur ekki samboðið. Við erum ekki að taka á stórum álitaefnum sem koma fram í stjórnlagaráðstillögunum, meðal annars um embætti forseta Íslands, sem væri þó þarft að spyrja um samhliða forsetakosningum. Það er alveg ljóst að forsetakosningar munu ekki eingöngu snúast um mennina, konurnar eða fólkið sem býður sig fram heldur líka um afstöðu til þeirra spurninga sem hér eru lagðar fram. Þeim verður væntanlega breytt en það hefði verið þarft að spyrja þá sem bjóða sig fram til forseta hvers konar forsetaembætti þeir vilja sjá og hafa inni spurningar þar að lútandi.

Ég tel ekki, frú forseti, séu þess eðlis að þær séu tækar í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum. Eigi þær að vera í þá veru sem hér er þarf að umbylta þeim, það þarf að laga orðfæri og það þarf að taka út einstök orð til að fólkið sem á að taka afstöðu til þeirra geti svarað já eða nei.

Frú forseti. Að lokum legg ég til að valkosturinn „tek ekki afstöðu“ verði tekinn út úr þessari atkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðagreiðslur eiga að snúast um já eða nei. Fólk sem vill hugsanlega ekki svara er þá að lýsa því yfir að það ætli sér ekki að hafa afstöðu til þessa máls eða skila auðu vegna þess að það hafi ekki nægar upplýsingar.