140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[18:52]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum þingsályktunartillögu frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til nýrra stjórnarskipunarlaga.

Ég hef verið mikill stuðningsmaður þess frá upphafi að sérvaldir fulltrúar þjóðarinnar fengju það verkefni að móta tillögur að nýrri stjórnarskrá, og þó að Hæstiréttur hafi gripið inn í það ferli er það skoðun mín að niðurstaða þessa ferlis hafi í grundvallaratriðum verið jákvæð, þ.e. vinna og framlag stjórnlagaráðsins hafi verið mikið framfaraskref og fært okkur mun nær því að endurskoða stjórnarskrána en tekist hefur í samstarfi stjórnmálaflokka á Alþingi undanfarna áratugi.

Alþingi hefur ekki tekist að ná saman um grundvallarbreytingar á stjórnarskránni þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir þar um og þess vegna var fullt tilefni til að taka tillögugerðina úr hinum flokkspólitíska farvegi og færa hana í hendur sérstöku stjórnlagaþingi sem eins og við þekkjum endaði sem stjórnlagaráð.

Stjórnarskrá okkar er að stofni til arfur frá Dönum og sú vegferð sem við erum í er því í raun og veru tilraun til að semja fyrstu alíslensku stjórnarskrána. Af því tilefni er full ástæða til að hafa mjög náið samráð við þjóðina um það verkefni, ekki einvörðungu að biðja um einfalt já eða nei við hinni endanlegu útgáfu eftirmálsmeðferðar Alþingis heldur er jafnframt mjög gagnlegt fyrir þingið að fá leiðsögn frá þjóðinni um það hvort frumvarp stjórnlagaráðs njóti stuðnings meiri hluta hennar.

Ég vil nota tíma minn til að ræða efnislega þá tillögu sem hér liggur fyrir og viðra nokkur sjónarmið um breytingar sem ég tel að mundu bæta málið enn frekar, sjónarmið sem ég vona að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd taki til skoðunar milli fyrri og síðari umr. Hér er lagt til að þjóðin verði spurð annars vegar um viðhorf til frumvarpsins í heild sinni og hins vegar álits á tilteknum álitaefnum.

Varðandi fyrri spurninguna styð ég þá hugmynd að kalla eftir viðhorfum þjóðarinnar til frumvarpsins í heild sinni þannig að sú afstaða liggi fyrir áður en Alþingi leggur fram frumvarp til stjórnarskipunarlaga á næsta þingi. Varðandi orðalag spurningarinnar tel ég hins vegar að það eigi að orða þá spurningu til þjóðarinnar skýrt og án þess fyrirvara sem lýtur að samræmi við lögbókina og alþjóðasamninga. Sú vinna við lagasamræmingu hlýtur auðvitað að eiga sér stað í meðförum Alþingis eftir að frumvarpið hefur verið lagt fram á næsta þingi en ég tel ekki eðlilegt að skilyrða spurningu til þjóðarinnar við þá vinnu sem ekki hefur farið fram. Það fari hins vegar vel á því að láta þess skýrt getið í inngangi með spurningunum að sú lagasamræming muni eiga sér stað á vegum Alþingis. Það hefur hins vegar sjálfstæða þýðingu fyrir þingið að fá fram afstöðu þjóðarinnar til frumvarps stjórnlagaráðs eins og það liggur fyrir og í því felst mikilvæg leiðsögn fyrir áframhaldandi meðferð málsins á Alþingi.

Hin meginspurningin sem lögð er til í fimm liðum í þessari þingsályktunartillögu lýtur að því að reyna að fá fram afstöðu þjóðarinnar til nokkurra nýmæla sem lögð verða til í frumvarpi stjórnlagaráðs og lúta m.a. að þjóðareign á auðlindum, stöðu þjóðkirkjunnar, persónukjöri, jöfnu atkvæðavægi og síðast en ekki síst ákvæði um að þjóðin fái sjálfstæða heimild til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar munar mestu um auðlindaákvæði sem menn hafa í áratugi reynt að koma inn í stjórnarskrána á hinu pólitíska sviði en án árangurs.

Í því frumvarpi sem stjórnlagaráð lagði fram segir í 1. mgr. 34. gr., með leyfi forseta:

„Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“

Ég tel að þarna sé kveðið mjög skýrt upp úr með að tilgangurinn er ekki sá að hefja víðtæka þjóðnýtingu á öllum náttúruauðlindum eða grípa til eins konar alræðishugmyndafræði eins og kommúnisma, eins og ráða mátti af ræðu þingmanna fyrr í dag, heldur er mjög skýrt að hér er eingöngu verið að tala um þær auðlindir í náttúru Íslands sem ekki eru í einkaeigu og ég tel reyndar að það væri til bóta ef hið endanlega orðalag tillögunnar mundi vera á sömu lund, þ.e. í spurningunni verði sagt: Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

Umræðan um þjóðareign á sér áratugalanga sögu og það kemur fram í greinargerð með frumvarpi stjórnlagaráðs að sá skilningur sem ráðið leggur í hugtakið „þjóðareign“ í frumvarpi sínu er alveg skýr og byggir á Þingvallalögunum frá 1928. Þar kemur fram í 1. gr. laganna sem enn er að finna í gildandi lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum sá skilningur að Þingvellir séu „ævinleg eign íslensku þjóðarinnar“, eins og það er orðað, og síðan segir og það er kjarni málsins: Þjóðareign er eign sem aldrei má selja eða veðsetja. Það er sú eignarréttarlega vernd sem lögfesting hugmyndarinnar um þjóðareign í stjórnarskrá mundi veita, þ.e. ríkið gæti ekki farið með þá eign eins og hverja aðra eign í ríkiseigu, fasteignir eða landareignir sem hægt er að selja eða ráðstafa með varanlegum hætti, með einfaldri ákvörðun þingmeirihluta hverju sinni.

Fimmta spurningin lýtur að þjóðaratkvæðagreiðslu og þar er að mínu viti afar mikilvægt ákvæði því slíkt ákvæði mundi auka beint lýðræði í samfélagi okkar sem ég held að sé mjög í anda þeirrar kröfu samtímans að almenningur hafi aukna aðkomu að ákvörðunum stjórnvalda. Sú spurning kallar hins vegar að mínu mati á sérstaka umræðu um 26. gr. stjórnarskrárinnar um málskotsrétt forseta Íslands. Ég er þeirrar skoðunar að mjög gagnlegt væri fyrir þingið að fá viðhorf þjóðarinnar til þess hvort sama þörf sé fyrir málskotsrétt forseta Íslands þegar þjóðin sjálf er komin með sjálfstæðan rétt til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég er sjálfur þeirrar skoðunar að það sé rökrétt afleiðing af lögfestingu ákvæðis um þjóðaratkvæðagreiðslu í stjórnarskrá að málskotsréttur forseta sé þar með felldur úr gildi. Ég tel að það ákvæði sé arfur frá einveldisstjórnarfari 19. aldar sem eigi ekkert erindi við það lýðræðissamfélag sem við viljum byggja á 21. öldinni, að sjálfsögðu að því gefnu að þjóðin hafi sjálf fengið í hendurnar þennan sjálfstæða rétt til þjóðaratkvæðis um mikilvæg málefni er varða þjóðarhag.

Virðulegi forseti. Þetta eru í stuttu máli þau sjónarmið sem ég vil koma á framfæri við þetta tækifæri. Ég vona að umræðan í kvöld verði áfram málefnaleg og nefndin taki til skoðunar þau álitamál og breytingartillögur sem ég hef reifað milli fyrri og síðari umr.

Ég vil ítreka í lokin að ég styð þetta mál heils hugar og tel eðlilegt að nýta það tækifæri sem forsetakosningar í sumar veita til að kalla eftir afstöðu þjóðarinnar til þess hvort frumvarp stjórnlagaráðs skuli vera leiðarljós Alþingis við breytingar á stjórnarskránni á komandi vetri.