140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:04]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það skiptir meginmáli að þekkja þau hugtök sem menn eru stöðugt að ræða um eins og hugtakið þjóð. Ef við segjum að allar náttúruauðlindir séu í eigu þjóðarinnar og þjóðin eignist nánast allar auðlindir sem einkaeignir þá skiptir það máli sem hér hefur verið rætt um að orkuverð sé það sama alls staðar á landinu, nema fyrir útlendinga sem teljast þá ekki til þjóðarinnar. Það verður væntanlega að hafa mismunandi orkuverð fyrir þá sem eiga auðlindina, Íslendinga væntanlega, og hina sem eiga hana ekki. Þá kæmi upp undarleg staða. Útlendingar þyrftu að borga aukalega fyrir t.d. rafmagnið sem væri þjóðareign Íslendinga.

Það er mjög margt í þessu. En það sem mig langar mest að spyrja hv. þingmann um er það sem hann segir að sé meginleiðsögn. Hvað felst þá í orðunum „eftir yfirferð með tilliti til laga og alþjóðasamninga“? Þetta hlýtur að hafa einhverja þýðingu. Má þá bara breyta því sem rekst á lög eða alþjóðasamninga? Mætti t.d. breyta ákvæðinu um Lögréttuna? Mætti breyta ákvæðinu um þjóðareign á auðlindum? Hvað felst eiginlega í þessum spurningum og hvaða skilaboð gefa svörin við þeim til þeirra sem taka svo ákvörðun um málið, þ.e. þings í haust? Hvað geta menn gert við það að einhver maður segist styðja stjórnarskrána en vera á móti ákvæðum í stjórnarskránni? Hvort meinti eiginlega sá ágæti hluti af þjóðinni?