140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:14]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil bara árétta að ég tel að málið sé í réttum farvegi eins og það er borið upp hérna.

Ferillinn er þessi: Það er kosið til stjórnlagaþings. Hæstiréttur lýsir þá kosningu ógilda. Það er ákveðið í þinginu að nýta samt vilja þjóðarinnar eins og hann birtist í kosningum til að velja sömu einstaklinga í stjórnlagaráð. Þeir koma saman og leggja fram frumvarp til breytinga á stjórnarskránni.

Þjóðin hefur hins vegar ekki verið spurð álits á því hvort hún telur þær tillögur sem þarna koma fram farsæla leið til að breyta stjórnarskránni og ég tel að við þær aðstæður sé mjög eðlilegt að fá það strax fram áður en þingið tekur málið í sínar hendur og býr hið endanlega frumvarp í þann búning sem síðar verður lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar.

Ég held að þetta sé eðlilegt ferli málsins og tel að menn verði að taka það ferli mjög alvarlega og taka þá leiðsögn sem þjóðin veitir í þessari kosningu það alvarlega að hún verði ráðandi um framhald málsins. Ef meiri hluti þjóðarinnar svarar þessari spurningu játandi þá er klárt að þetta frumvarp er sá grunnur sem verður unnið með á þinginu næsta vetur. Ef svarið verður hins vegar neitandi er ljóst að málið hefur verið opnað upp á gátt að nýju og það er þá þingsins að freista þess að ná saman um breytingar á stjórnarskránni sem ég vona að verði að stærstum hluta í þá átt að við fáum heildstætt plagg sem sé betur í samræmi við áherslur í nútímanum um almenna hagsmuni.