140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[19:16]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ekki get ég sagt að ég hafi sannfærst við ræðu hv. síðasta ræðumanns um þennan feril allan sem verið hefur til umfjöllunar í dag. Þegar það er orðað þannig að mikilvægt hafi verið að nýta vilja þjóðarinnar, eftir að Hæstiréttur úrskurðaði stjórnlagaþingskosningarnar ólögmætar, til þess að taka þær tillögur og vinna með þær áfram, minni ég á það að það var einungis rúmlega 30% kosningaþátttaka í stjórnlagaþingskosningunum. Mér finnst mjög hæpið að menn geti tekið sér það vald að tala fyrir munn þjóðarinnar þegar það liggur fyrir að ríflega 70% hennar sátu heima, kosningarbærra aðila þar að auki.

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um tillögu til þingsályktunar um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögu stjórnlagaráðs. Það er meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem flytur þá tillögu og um málið er ágreiningur í þinginu. Við þessi vinnubrögð vil ég gera alvarlegar athugasemdir en síðan ætla ég að fara efnislega í þetta mál síðar í ræðu minni.

Ég vil gera athugasemd við þessi vinnubrögð. Mér finnst meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar — og eftir atvikum meiri hluti þingsins, það á eftir að koma í ljós í atkvæðagreiðslu — vera að brjóta á minni hlutanum í þessu og mér finnst það mjög alvarlegt þegar um er að ræða sjálfa stjórnarskrá lýðveldisins. Ef eitthvað hefur verið haft að leiðarljósi hingað til frá lýðveldisstofnun við breytingar á stjórnarskránni er það að gera þær breytingar í samkomulagi.

Það hefur verið rifjað hér upp, og hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson rifjaði það vel upp, hvernig þessum málum var háttað hér fyrr á tíð og rifjaði líka upp hvers vegna það hafði ekki tekist í síðustu atrennu að gera breytingar á stjórnarskránni. Það var vegna þess að annarleg sjónarmið, sem hann kallaði, sem réðu för. Eftir að forseti Íslands hafði synjað fjölmiðlalögunum svokölluðu samþykktar, og sá ferill allur, var það eindregin skoðun sem var látin í ljós með skýrum hætti í stjórnarskrárnefndinni að það yrði ekkert gert sem hróflaði við þeim málskotsrétti. Síðan hefur það heldur betur snúist í höndunum á því sama fólki.

Mér finnst ekki hafa verið látið á það reyna hér með fullnægjandi hætti eða af nokkurri viðleitni að kanna það hvort þingið geti ekki sjálft klárað þetta verkefni. Það er búið að fara yfir það vel hér í dag að efnislega umræðan um stjórnarskrárbreytingarnar — menn vita ekki hvort yfir höfuð er svo langt á milli, vegna þess að einungis hefur verið rætt um fyrirkomulagið á þessu. Fyrirkomulagið hefur tekið yfir það verkefni sem við getum jú öll sameinast um.

Við sjálfstæðismenn erum algjörlega sammála því að það eru ákveðin atriði í stjórnarskránni sem gera ber breytingar á og ég er alveg sannfærð um að ef okkur gæfist tækifæri til að setjast yfir það verkefni, og menn væru staðráðnir í því að vinna það verkefni af heilindum, gætum við það.

Í þessari umræðu hefur líka verið rætt um venjulega fólkið og lögfræðingana. Það á að spyrja þjóðina en það má ekki hlusta á athugasemdir fræðimanna, þá sem gerst þekkja til. Formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar gekk meira að segja svo langt að fara að tala um að þetta væru spurningar sem venjulegt fólk skildi jafnvel þótt lögfræðingunum tækist að flækja það mál. Ég verð nú að lýsa því hér yfir strax að ég hlýt að vera venjulegt fólk þar sem ég er ekki lögfræðingur, en ég bið um mikilvæga leiðsögn fræðimanna og sérfræðinga þegar verið er að fjalla um grunnlögin. Þá tel ég einfaldlega að okkur hinum, venjulega fólkinu, beri að hlusta á fræðimennina.

Vegna þess að flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu eru svo uppteknir af því að halda því fram að verið sé að kalla eftir leiðsögn, verið að kalla eftir viðbrögðum þjóðarinnar og umsögnum, vil ég lesa viðbrögð í Morgunblaðinu 25. febrúar 2012 frá sérfræðingunum sem voru spurðir um þetta ferli allt. Ég ætla að grípa hér niður, með leyfi forseta.

Fyrst segir Ágúst Þór Árnason, deildarformaður lagadeildar Háskólans á Akureyri:

„Málið er náttúrlega það að menn gleyma því að stjórnarskráin er lög og það gilda lögfræðileg rök um hana og hvernig hægt er að setja hlutina fram og þeir þurfa að sjálfsögðu að hafa eitthvert innra samræmi.“

Síðan segir hann:

„Þannig að ef þjóðin verður látin kjósa, annaðhvort um hundrað greinar eða eina og eina grein, eða hvernig sem menn ætla að fá fram „vilja þjóðarinnar“, þ.e. ef kosið verður um fullbúnar greinar, þá bjóða menn heim hættu á því að eitthvað sé tekið út sem er síðan nauðsynlegt samhengisins vegna.“

Þetta er mikilvægt atriði. Þetta er ekki eitthvert plagg sem má slíta í sundur. Með því gæti það misst innra samræmi.

Ágúst segir hérna líka, með leyfi forseta:

„Ég furða mig á því að Alþingi skuli samþykkja að leggja þetta fyrir stjórnlagaráð án þess að það sé sjáanlegt að nokkur sjálfstæð vinna hafi farið fram, hvorki í nefndinni né Alþingi almennt.“

Tekur hann þar með undir þá gagnrýni sem við höfum viðhaft hér, að efnisleg umræða hafi ekki farið fram.

Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við lagadeild Háskóla Íslands, segir hér aðspurður, með leyfi forseta:

„Mér finnst þessi leiðangur mjög furðulegur. Hvað á stjórnlagaráðið nákvæmlega að tjá sig um núna“ — verið er að vísa til þess þegar stjórnlagaráðið var kallað saman aftur — „og út frá hvaða forsendum? Og að stilla svo þjóðinni upp með þeim hætti að segja „annaðhvort samþykkið þið eða synjið í heild sinni þessum pakka“. Mér finnst þetta mjög háskalegt“.

Ragnhildur Helgadóttir, prófessor við Háskólann í Reykjavík, segir í sömu frétt:

„Ég hef sagt það frá upphafi að mér finnst málið þurfa að fá að þroskast. Það þarf að vinna það meira og betur, það væri ótækt að mínu mati að leggja þetta fyrir þjóðaratkvæði og gera þetta að stjórnarskrá án þess að Alþingi skoði málið meira efnislega. Það eru alls konar álagspróf og gæðaatriði, til dæmis samlestur við þjóðréttarsamninga og eitt og annað sem á eftir að gera, og það er alveg eðlilegt og ekki við stjórnlagaráðið að sakast enda höfðu þau mjög stuttan tíma.“

Síðar segir hún:

„Svo hef ég aðeins ákveðnar efasemdir um það hversu gagnlegt það er að setja drögin í heild í núverandi formi í þjóðaratkvæðagreiðslu“ — og hún bendir á að óbreytt gætu drögin ekki orðið að stjórnarskrá.

Ragnhildur bendir einnig á að kjósendur gætu komið á kjörstað og hugsað með sér að þarna væri fullt af fínum hugmyndum en að þetta væri allt svo óskýrt og ekki auðséð hvernig það ætti að virka að kjósandinn endaði með því að segja nei í bili.

Þetta eru að mínu mati lykilgagnrýnisraddir og einnig er hægt að benda á ummæli Sigurðar Líndals lagaprófessors þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Mér finnst þetta vera allsherjar handarbakavinna og í raun algjört klúður.“

Þurfum við fleiri orð eða má ekki hlusta á sérfræðingana? Ég segi og nú er tími minn á þrotum hér og ég er ekki einu sinni komin að því að ræða spurningarnar efnislega; ég óska eftir því að vera sett aftur á mælendaskrá. Ég ætla ekki að endurtaka það sem hefur verið sagt hér um ákvæði eins og með náttúruauðlindirnar, sú gagnrýni sem ég hef haft þar hefur komið fram.

Varðandi fyrstu spurninguna, um að tillaga stjórnlagaráðs verði lögð fram eftir að hún hafi verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga — auðvitað hefði þetta átt að vera gert fyrir fram. Það eru líka fjölmargar spurningar sem ég ætlaði að lista hér upp sem vantar hreinlega, það er t.d. spurningin: Telur þú þörf á nýrri stjórnarskrá? Eða: Ert þú fylgjandi íhaldssömum breytingum á stjórnarskránni? Eitthvað slíkt.

Fólk sem mætir í þessa þjóðaratkvæðagreiðslu og hefur bara þessar spurningar fyrir framan sig getur ekki komið þeim vilja sínum á framfæri í þjóðaratkvæðagreiðslunni að það vilji kannski bara halda stjórnarskránni eins og hún er jafnvel með einhverjum þeim breytingum sem mundu kallast íhaldssamar og hófsamar.