140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:00]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að fá að fara aðeins í gegnum vangaveltur mínar varðandi þessa tillögu um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.

Eftir að hafa hlustað á umræðuna hér í dag setti ég niður nokkra punkta um það sem menn virtust einna helst kalla eftir eða gera athugasemdir við varðandi þær tillögur sem liggja fyrir frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Það sem virðist einkenna flestar ræðurnar er ósk um að orðalag þeirra spurninga sem hér er verið að fjalla um verði skýrara og ég efast ekki um að meiri hluti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar mun skoða það. Síðan virðist hafa komið fram ósk frá hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur um að spyrja líka hvort rétt sé að setja framsal á fullveldi inn í stjórnarskrá Íslands. Líka var bent á í ræðu hv. þm. Illuga Gunnarssonar mikilvægi þess að skýra hugsanlega betur hugtakið þjóðareign versus ríkiseign og hvað væri eiginlega átt við með orðinu náttúruauðlindir. Að sama skapi fannst honum að almennt ákvæði ætti að vera í stjórnarskránni og í almennum lögum þar sem bæði þessi hugtök yrðu skilgreind frekar.

Ég tel hugsanlegt að setja það inn í tillögu sem yrði síðan 2. liður og í fyrstu spurningunni, náttúruauðlindir lýstar þjóðareign, yrði sérstaklega tilgreint að ekki væri verið að tala um að allar náttúruauðlindir féllu undir hugtakið þjóðareign heldur yrði einkarétturinn virtur eða sú staðreynd að tilteknar náttúruauðlindir eru í einkaeigu.

Ýmsar ábendingar hafa komið hér fram varðandi þau ákvæði sem eru í tillögum stjórnlagaráðs og varða kosningalöggjöfina og starf okkar á Alþingi. Vangaveltur flestra virtust snúast um að spurningar sem ætti að spyrja samhliða forsetakosningunum ættu fyrst og fremst að vera skyldar stjórnarskránni. Ég verð að segja hvað það varðar að þó að mér finnist góðar ábendingar hafa komið fram í umræðunni er ég ekki fyllilega sammála því að þær spurningar sem verða lagðar fyrir þjóðina samkvæmt þessari tillögu, samhliða forsetakosningunum, þurfi að skilgreinast sem skyldar stjórnarskránni. Það má náttúrlega benda á að stjórnarskráin er grunnlög. Það má því halda því fram að allt sem við gerum á þingi sé skylt stjórnarskránni því að hún er sá rammi sem við störfum innan.

Ég vil taka það fram að ég er almennt mjög jákvæð gagnvart því að leitað sé til þjóðarinnar. Ég er mjög jákvæð gagnvart þeirri tillögu sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lagt fram um að leitað verði til þjóðarinnar varðandi það hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið eða ekki. Ég hvet þingmenn til að skoða hvort ekki sé brýnt að fá svar við þessum tveimur málefnum frá þjóðinni samhliða forsetakosningunum.

Svo að ég fari aðeins yfir afstöðu mína, þar sem ég hef tilkynnt jákvæðni mína gagnvart þessari hugmynd, má segja að hún byggist á hugsjónum mínum sem stjórnmálamanns og ályktunum Framsóknarflokksins og þeim grunngildum sem ég hef starfað eftir sem stjórnmálamaður. Ég hef talað um sjálfa mig sem samvinnukonu. Ég vil starfa sem stjórnmálamaður samkvæmt samvinnuhugsjóninni sem er ein af grunnstefnu hugmyndafræði Framsóknarflokksins. Eitt af grunngildum samvinnuhugsjónarinnar er áherslan á lýðræði. Eins og við þekkjum innan samvinnufélaganna er áherslan einn maður, eitt atkvæði. Ef við horfum til sögu Framsóknarflokksins sjáum við til dæmis að samhliða þessu og innan samvinnuhreyfingarinnar er mikil áhersla lögð á menntun og ástæðan fyrir því að svo mikil áhersla er á menntun er sú að við teljum að lýðræði geti ekki virkað án þess að fólk fái upplýsingar, lýðræði virki ekki án upplýsinga. Þetta sjáum við mjög skýrt í núgildandi lögum um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna þar sem í 6. gr. laganna segir að til að fólk geti mótað sér afstöðu þurfi það að fá upplýsingar. Alþingi er með kvaðir um að standa fyrir víðtækri kynningu á þeim málefnum sem borin eru undir þjóðaratkvæði.

Lýðræði er í mínum huga lifandi. Það á að þróast, það á að þroskast og það á að taka breytingum. Þó að hlutirnir hafi verið með einhverjum ákveðnum hætti er ekki þar með sagt að þeir eigi alltaf að vera þannig heldur eigum við að vera tilbúin að velta fyrir okkur hvernig við getum sem best stuðlað að því að lýðræði sé sem virkast í íslensku samfélagi. Þegar við fjöllum um jafnmikilvæga hluti og stjórnarskrána okkar, eins og hér hefur ítrekað komið fram, grunnlögin okkar, er að mínu mati brýnt að við séum í nánu samráði við þjóðina. Það er ástæðan fyrir því að ég studdi tillögur á flokksþingi Framsóknarflokksins um stjórnlagaþing. Það er ástæðan fyrir því að ég barðist fyrir því fyrir síðustu kosningar að gerðar yrðu þær breytingar á stjórnarskránni að hægt væri að setja þar inn ákvæði um stjórnlagaþing. Og þó að það sé ýmislegt í þessu ferli sem ég get gert athugasemdir við þá virði ég þá viðleitni sem ég tel að hafi komið fram hjá meiri hluta Alþingis eða þeim þingmönnum sem hafa stutt málið að gera ákveðnar breytingar á stjórnarskránni. Það er ekki þar með sagt að ég sé fyllilega sammála öllu því sem aðrir þingmenn, hinir 62, tala fyrir.

Á vefsíðu minni lagði ég fram athugasemdir mínar og vangaveltur um tillögur stjórnlagaráðsins. Ég gat sætt mig við ýmislegt og taldi það vera til bóta en það var líka ýmislegt sem ég taldi ástæðu til að gera athugasemdir við og við þyrftum að skoða betur.

Hvað varðar akkúrat þetta hins vegar vil ég taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur um að breyta þurfi spurningunni um þjóðkirkju Íslendinga því að uppröðunin sjálf gæti haft áhrif á fólk — hún er aðeins öðruvísi orðuð en hinar spurningarnar.

Það hafa líka komið fram athugasemdir við spurninguna í 1. lið. Ég vil velta upp þeirri hugmynd hvort einhvers konar sáttatillaga gæti orðið innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, sem mun fjalla um þessa tillögu í framhaldinu, og í staðinn fyrir að orða spurninguna eins og hún er orðuð núna yrði hún: Vilt þú að vinnu við gerð nýrrar stjórnarskrá verði haldið áfram á Alþingi á grundvelli frumvarps eða tillagna stjórnlagaráðs? — þannig að við spyrðum þjóðina almennt út í þetta.

Ég tek undir það sem sagt var um fullveldisframsalið.

Ég hef sjálf haft mikinn áhuga á því og gerði einmitt athugasemdir við það í pistli sem ég setti á vefsíðu mína að ég væri ekki sátt við að minni hluti Alþingis skyldi ekki hafa möguleika á því að vísa málum í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég gerði líka athugasemdir við að það væri verið að ramma inn þennan rétt ákveðins hluta þjóðarinnar til að takmarka hvaða mál hann gæti óskað eftir að færu í þjóðaratkvæðagreiðslu meðan réttur forsetans væri skilinn eftir án þess að neinn rammi væri settur um hann. Ég held að það sé eitt af því sem þjóðin ætti jafnvel að fá að taka afstöðu til í þessari atkvæðagreiðslu, þ.e. hvort hún sé sátt við að réttur hennar sé takmarkaður á þann máta að Icesave hefði hugsanlega ekki getað farið í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma.

Ég vil líka velta því upp að spyrja megi um kosningar, jafnrétti kynjanna, vernd minni hlutans þegar við förum út í einn maður, einn atkvæði, hvernig við getum þá tryggt stöðu minni hlutans, sem er mjög mikilvægt í lýðræðissamfélagi, og hvort einhver krafa eigi að vera um lágmarksþátttöku þegar við förum í þjóðaratkvæðagreiðslu (Forseti hringir.) til að kosningin verði bindandi.

Þetta voru nokkur atriði sem ég vildi fara í gegnum, virðulegi forseti. Ég mundi gjarnan vilja að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd velti þeim fyrir sér á milli fyrri og síðari umræðu.