140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:12]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég skildi tillögur stjórnlagaráðsins þegar ég fór í gegnum þær til að geta sett fram athugasemdir mínar má segja að það verði tveir neyðarhemlar á Alþingi. Annars vegar mun ákveðið hlutfall þjóðarinnar geta farið fram á að kalla mál í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu en þar eru sett takmörk hvað varðar fjárlög, fjárhagslegar skuldbindingar og svo minnir mig að það hafi líka haft með alþjóðlega samninga að gera. Síðan er hinn neyðarhemillinn forsetinn sjálfur sem heldur alveg rétti sínum eins og hann er í núgildandi stjórnarskrá þannig að það eru engin takmörk sett á forsetann hvað það varðar. Hann gæti þess vegna sent hvert einasta lagafrumvarp sem kemur frá Alþingi í þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt núgildandi stjórnarskrá og samkvæmt tillögum stjórnlagaráðsins.

Ég hef horft til þess hvernig fyrirkomulagið í Danmörku er og talið það vera áhugavert. Þar getur minni hluti þingsins vísað málum í þjóðaratkvæðagreiðslu en mörkin hvað það varðar eru fjárlögin sjálf af því að í fjárlögum kemur fram stefnumörkun frá ríkjandi stjórnvöldum.

Ég mundi til dæmis ekki telja að Icesave-samningarnir, hvorki 1 né 2, hefðu getað fallið undir fjárlögin af því að þar var verið að tala um ríkisábyrgð og að sjálfsögðu hefði það mál átt að geta farið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég er ekki viss um að það sé rétt að setja þau mörk sem þarna er verið að leggja til varðandi hlutföll þjóðarinnar. Ég mundi telja eðlilegra að hækka hlutfall þjóðarinnar sem getur farið fram á þessa bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu þannig að þröskuldurinn kæmi þar frekar en hamlaði hvaða mál gætu farið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef sjálf haft efasemdir hvað varðar forsetann. Maður hefði talið að (Forseti hringir.) í lýðræðissamfélagi ættu fleiri en einn einstaklingur að koma að þeirri ákvörðun hvað fer í þjóðaratkvæðagreiðslu eða ekki.