140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:20]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það að ég virði þá viðleitni sem stjórnarmeirihlutinn hefur sýnt í því að breyta stjórnarskránni. Þegar stjórnlagaráði var komið á taldi ég réttast að við hefðum kosið aftur til stjórnlagaþings en niðurstaða þingsins var önnur. Það breytir því hins vegar ekki að ég taldi það hlutverk mitt sem þingmanns að fara efnislega, eins og hv. þm. Pétur Blöndal hefur gert og á heiður skilinn fyrir, að vísu ekki jafnítarlega og þingmaðurinn, í gegnum þær tillögur sem stjórnlagaráð gerði, og ég skal viðurkenna að þar sitja þó nokkuð margir einstaklingar sem ég taldi rétt að sætu á stjórnlagaþingi. Ég veit að menn reyndu að vanda sig við þessa vinnu, þeir lögðu sig fram við vinnuna og þarna eru ýmsar áhugaverðar hugmyndir. Að sjálfsögðu er það þannig að sumt er ég mjög sátt við og annað er ég ekki jafnsátt við, eins og ég fór lauslega yfir í ræðu minni og í andsvari við hv. þm. Tryggva Þór Herbertsson. Það voru athugasemdir eins og varðandi framkvæmd eða tillögur þeirra um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Til viðbótar er eitt sem ég mundi sannarlega setja viðvörunarljós við og það er tillagan um að með auknum meiri hluta Alþingis sé í raun hægt að breyta stjórnarskránni. Ég held að það sé stórvarasamt. Við höfum séð það hér að við þingmenn getum orðið mjög sammála um mál þó að þau séu kannski töluvert vitlaus. Hvað þetta varðar held ég að það eigi alltaf að vera reglan að ef við gerum breytingar á stjórnarskránni þurfi þjóðin að samþykkja þær í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.