140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:22]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá kemur spurningin um ferlið í kringum þessa stjórnarskrá af því að þjóðin mun aldrei greiða atkvæði um þessa stjórnarskrá í bindandi kosningu, aldrei. Þetta verður nefnilega sett í óbundna skoðanakönnun í sumar til að nýta einhverjar forsetakosningar, það er öll virðingin fyrir stjórnarskránni. Síðan verður lagt fram frumvarp, ef það verður samþykkt sem er alls ekki gefið, í haust. Það verður væntanlega samþykkt sem síðasta mál fyrir kosningar þegar kosið verður næsta vor og hvað gerist þá, frú forseti? Þá mun þjóðin kjósa nýtt þing til að reka þjóðfélagið áfram og bæta fyrir það sem hæstv. ríkisstjórn er búin að gera. Hún er ekkert að hugsa um stjórnarskrána, hún er ekkert að greiða atkvæði um stjórnarskrána, ekki fyrir tíu aura. Hún er að kjósa nýtt þing til að reka þjóðfélagið næsta kjörtímabil.

Ég vil spyrja hv þingmann: Finnst henni eðlilegt að þjóðin greiði í rauninni aldrei atkvæði um þessa nýju stjórnarskrá sína? Því það verða þingmenn á því þingi, sem er þá nýkjörið, sem samkvæmt sannfæringu sinni — þeir mega ekki fara eftir neinu öðru, þeir mega ekki fara eftir neinum boðum frá kjósendum sínum, það stendur sérstaklega í stjórnarskránni — greiða atkvæði um þessa stjórnarskrá og það getur farið svona eða hinsegin.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Finnst henni þetta ferli skynsamlegt eða fellst hún á það sem ég lagði til? Það liggur fyrir frumvarp í nefndinni frá mér um að 79. gr. verði breytt fyrst, hvernig stjórnarskránni verði breytt og það verði gert með mjög ríflegum meiri hluta vegna þess að ég vil að stjórnarskrárbreytingar séu seigfljótandi, að það sé ekki verið að breyta þessu á hverju ári þannig að við búum við stöðuga sveiflu frá vinstri til hægri eða hægri til vinstri o.s.frv. heldur verði þetta seigfljótandi. Ég vil hafa breytingar á stjórnarskránni mjög þunglamalegar.