140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt hjá þingmanninum að í Bandaríkjunum er atkvæðavægi ójafnt á milli fylkja og til dæmis í Washington DC eru engir þingmenn, einfaldlega vegna þess að það var talið að afl þess litla fylkis væri það mikið að það þyrfti ekki sína eigin þingmenn. Þar eru allir þingmennirnir staðsettir. Jafnframt er mjög mismunandi atkvæðavægi í fylkjum Bandaríkjanna. Við getum til dæmis borið Kaliforníu saman við fámenn fylki eins og Alaska, þar er ólíkt atkvæðavægi á bak við þingmennina.

Ég held að við sjáum þetta samt best í Evrópusambandinu, þar er talið mjög mikilvægt að hafa atkvæðavægi mjög ólíkt á milli landanna til þess að gæta jafnræðis í búsetu innan Evrópusambandsins. Nokkuð sem við getum kallað virðingu fyrir því að íbúarnir geti búið þar sem þeir vilja endurspeglast oft og tíðum í því að atkvæðavægi er ójafnt, ekki bara hér á landi heldur í mörgum löndum. Þessi hugmynd í tillögu stjórnlagaráðs gengur þvert á þetta og raunverulega þvert á það sem við munum berjast fyrir innan Evrópusambandsins ef við förum þangað.