140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:42]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ræðuna sem var um margt mjög merkileg. Hann kom inn á punkta sem hafa mjög verið gagnrýndir. Nú ætla ég aðeins að fara yfir náttúruauðlindaákvæðið sem er í þessari þingsályktunartillögu því að náttúruauðlindir þjóðarinnar eru mitt hjartans mál.

Mig langar til að benda þingmanninum á að með þeirri þingsályktunartillögu sem er hér til umræðu er verið að innleiða kommúnistastefnu ríkisstjórnarinnar. Það hefur verið tekin ákvörðun um að koma með þetta náttúruauðlindaákvæði almennt orðað inn í þessa þingsályktunartillögu, að náttúruauðlindir skuli lýstar þjóðareign. Fólk á svo að segja já eða nei við því.

Ég ætla að benda á að í skýrslu stjórnlagaráðs kemur fram að náttúruauðlindir skuli lýstar þjóðareign að undanskildum þeim sem eru orpnar eignarrétti. Af einhverjum ástæðum hefur ríkisstjórnin eða þeir aðilar sem standa fyrir þessari þingsályktunartillögu breytt þessu með þessum hætti. Þess vegna spyr maður: Úr því að þetta er kynnt svo að þjóðin fái að greiða atkvæði um tillögur stjórnlagaráðs, hvers vegna kemur þá ekki ákvæðið óbreytt frá stjórnlagaráði inn í þessa þingsályktunartillögu sem er upptakturinn að hugsanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu sem á að fara fram samhliða forsetakosningum?

Hverja telur þingmaðurinn ástæðuna fyrir þessu? Getur verið að þarna sé verið að skapa einhvern þrýsting hjá þjóðinni, undirbyggja eitthvað í framhaldinu sem stjórnvöld telja sig ekki geta gripið fram hjá og vísa þá í þjóðarvilja? Er ekki verið að leggja upp taktinn að því (Forseti hringir.) að allar náttúruauðlindir falli þarna undir og þar með undir þjóðnýtingu?