140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Ég er með tvær eða þrjár spurningar en vildi fyrst benda á að stjórnlagadómstóll Þýskalands varaði við því við síðustu breytingu að atkvæðavægi Þýskalands innan Evrópusambandsins væri orðið ótilhlýðilega lágt á hvern íbúa. Umræða um að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt á sér því stað mjög víða. Það er spurning hvort það sé ekki, og ég beini því til hv. þingmanns, rétt að jafna aðstöðu íbúa landsins gagnvart stjórnsýslunni með öðrum hætti en þeim að skerða lýðræðið þannig að menn séu með mismunandi atkvæðavægi.

Síðan er spurning til hv. þingmanns: Telur hann að það þurfi að breyta stjórnarskrá? Það fannst mér ekki koma nógu skýrt fram í ræðu hans. Þarf að breyta stjórnarskránni?

Í öðru lagi: Telur hann að í þessum hugmyndum stjórnlagaráðs sé allt slæmt? Er ekki eitthvað gott þar inn á milli? Mitt mat er nefnilega að þar sé ýmislegt og eiginlega mjög margt gott en þá er spurningin hvernig maður greiðir atkvæði þegar maður lendir í því að þurfa að greiða atkvæði já eða nei um eitthvað sem er bæði gott og slæmt.

Í síðasta lagi: Hvernig túlka menn þetta? Ég hef nefnt að ef menn greiddu atkvæði gegn fyrri liðnum, þ.e. viltu stjórnarskrá eða ekki, eru þeir í rauninni búnir að greiða atkvæði gegn hinum liðunum líka því að þeir eru innifaldir í þeirri stjórnarskrá sem þeir voru að greiða atkvæði gegn og eins ef þeir greiða atkvæði með. Telur hv. þingmaður ekki þurfa að umorða fyrri spurninguna þannig að hún sé skilyrt því að menn hafi greitt atkvæði með eða á móti þeim spurningum sem koma á eftir og jafnvel hafa þær fyrr, á undan, þannig að fyrst greiði menn atkvæði um hvort náttúruauðlindir séu lýstar í þjóðareign (Forseti hringir.) og síðan greiði menn atkvæði um að þeir samþykki stjórnarskrána með því (Forseti hringir.) skilyrði?