140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[20:55]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er alveg hárrétt athugað hjá þingmanninum, þetta getur aukið eitthvað sem við gætum kallað leiðtogaræði. Það er hægt að leysa það á ýmsa vegu en ég er ekki sérfræðingur í þessu. Ég hef bara þá skoðun að það eigi að vega upp hinar dreifðu byggðir með því að koma á kerfi sem hefur reynst hér til dæmis ágætlega og það er að vera með mismunandi atkvæðavægi.

Ríki versus þjóð? Ég held að þetta sé algjör grundvallarspurning sem hv. þingmaður varpar hér fram. Það er ljóst að þjóðin er ekki það sama og ríkið en ríkið framfylgir ansi miklu fyrir þjóðina. Það er erfitt að sjá fyrir sér að allir þeir sem byggja þjóðina geti (Forseti hringir.) verið að ráðstafa til dæmis auðlindum eða öðru slíku. Auðvitað er það samt hægt í einhverjum tilfellum.