140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir að minnast á þá breytingartillögu sem ég hef lagt fram að máli þessu þar sem lagt er til að spurt verði hvort menn vilji að stjórnvöld dragi aðildarumsóknina að ESB til baka, svo ég nefni það.

Umræða í nefndinni hefur verið nánast engin því að við höfum aðallega fengið til okkar gesti. Varðandi þá spurningu hvaðan þessar fimm spurningar koma eiginlega, fyrir mér sitjandi í nefndinni duttu þær raunverulega af himnum ofan. Ég spurði einmitt um önnur álitaefni sem í stjórnarskránni felast, sumir hafa til dæmis áhuga á því að skoða forsetakaflann o.s.frv. Þetta var allt mjög í lausu lofti en mér var þó svarað að þessar spurningar hefðu verið efst á blaði hjá stjórnlagaráðinu sjálfu þegar það kom saman til fjögurra daga fundar í Reykjavík. Ég spurði einmitt formann nefndarinnar: Bíddu, er stjórnlagaráðið farið að vera tillögubært á Alþingi? Vegna þess að farið var eftir þeirra ósk um hvað ætti að spyrja.

Það sjá allir sem fylgjast með pólitík að hér er fyrst og fremst verið að færa þetta mál í pólitískan farveg. Það er verið að færa málið áfram inn í þann ófrið sem það hefur verið í. Stjórnvöld hafa hunsað úrskurð Hæstaréttar og vísa ég þar í að stjórnvöldum ber að fara eftir 2. gr. stjórnarskrárinnar varðandi þrígreiningu ríkisvaldsins. Þetta mál er náttúrlega með þeim eindæmum og sýnir enn á ný hversu freklega sú ríkisstjórn sem nú heldur um stjórnartaumana hér á landi valtar yfir Alþingi og tillöguréttinn sem við höfum.

Þingmaðurinn spurði um tillögu númer eitt. Ég vil gagnspyrja þingmanninn af því að hann hefur lengri þingreynslu en ég: Er það ekki einkennilegt að fara skuli fram þjóðaratkvæðagreiðsla um það hvort leggja megi fram frumvarp á Alþingi þegar þingmenn hver og einn eru bærir til þess sjálfir?