140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:06]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, auðvitað er það mjög furðulegt að það skuli vera leitað eftir því af þjóðinni hvort leggja megi fram frumvarp að nýrri stjórnarskrá. Síðan er þessi einkennilegi „varnagli eftir að hún hefur verið yfirfarin með tilliti til laga og alþjóðasamninga“ án þess að það sé með nokkrum hætti tíundað hvaða lög það gætu til dæmis verið sem kæmu þar til álita, hvaða alþjóðasamningar það væru o.s.frv. Auðvitað hljótum við að skoða þetta í samhengi við efnislega pólitíska umræðu síðustu vikurnar og mánuðina og þá kemur vissulega upp í hugann Evrópusambandið.

Hæstv. innanríkisráðherra flutti ákaflega athyglisverða ræðu um daginn þegar þessi mál voru til umræðu. Hann vakti meðal annars athygli á því að í tillögu stjórnlagaráðs væri ekki gert ráð fyrir því að þjóðin gæti til dæmis farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu þegar um væri að ræða alþjóðasamninga. Þá er augljóst að ef það fyrirkomulag hefði verið á, að þjóðin gæti kallað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekið mál, hefði það verið þannig að þjóðin hefði ekki getað farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samninginn, svo dæmi sé tekið. Það er mjög sérkennilegt að það skuli meðal annars vera þingmenn Hreyfingarinnar sem standa að slíku.