140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ágæta ræðu miðað við hvað tíminn er knappur. Það er náttúrlega dálítið slæmt að þetta skuli allt vera svona knappt.

En mig langar til að spyrja hana betur út í það sem hún var að gefa í skyn að Hreyfingin hefði verið keypt til stuðnings við ríkisstjórnina með því að lofa henni að skjóta þessu máli allt í einu fram í þjóðaratkvæðagreiðslu, hvort það sé einhvers staðar staðfest.

Síðan vildi ég spyrja hana um landskjörstjórn sem kom í morgun áður en þingsályktunartillagan var lögð fram. Hvað var það sem hún sagði og hvernig stendur á því að hún kemur fyrir nefndina áður en búið er að birta málið?

Þá vildi ég spyrja hv. þingmann um ýmis efnisleg atriði þó að við séum að ræða um ferlið og það er spurningin um — allir hafa meðfæddan rétt til lífs. Þetta er meðfæddur réttur. Hvað gerist degi fyrir fæðingu? Er þá enginn réttur til lífs? Síðan er skrúðmælgin. „Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn.“ Hver tryggir það? Er það Alþingi eða hver á að tryggja það? „Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.“ Hvað þýðir nú þetta? Hefur hv. þingmaður einhverja skýringu á þessu? Þjóðin mun fara að greiða atkvæði um þetta þegar það fer í það ferli sem við erum að ræða um í dag. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hún sé einhverju nær um þetta.

Svo er það þegar fólk á að greiða atkvæði um mál sem hefur bæði mikla kosti og mikla galla. Hvernig greiða menn atkvæði um slík mál? Hvernig geta menn greitt atkvæði um það sem þeir eru mikið á móti, eins og það að Ísland geti bara gengið inn í Evrópusambandið eins og ekkert sé, og svo eru hins vegar mörg góð atriði eins og Lögréttan?