140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:16]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil bera fram spurningu til hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur af því að hún nefndi meðal annars heimsókn frá fulltrúa landskjörstjórnar til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun. Nú hafa fleiri gestakomur verið út af þessari tillögu þó að málið sé ekki formlega komið til nefndarinnar. Það hefur verið viðhorf formanns nefndarinnar, og ég hef ekki gert athugasemd við það, að rétt væri að vinna aðeins í haginn með því að fá sjónarmið fram á fyrri stigum, en engu að síður hafa þessar gestakomur verið allnokkrar, meðal annars hafa fræðimenn á sviði lögfræði og stjórnmálafræði komið til nefndarinnar auk landskjörstjórnar eins og nefnt hefur verið.

Ég mundi vilja biðja hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur að deila því með okkur í þinginu hver viðhorf hlutaðeigandi fræðimanna hafa verið gagnvart þessari tillögu og því formi sem hér er lagt upp með, bæði hvað varðar spurninguna um það hvort málið eigi að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu á þessu stigi og eins varðandi framsetningu spurninganna. Þetta er atriði sem vissulega skiptir máli og fyrst þessar gestakomur eru yfirstaðnar sé ég ekki ástæðu til að því sé haldið leyndu fyrir þingheimi hver þau sjónarmið hafa verið, hvaða skoðun þeir gestir sem hafa komið til nefndarinnar hafa haft á þeim tillögum sem hér liggja fyrir.