140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:20]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir nefndi í ræðu sinni sjálfskapað tímahrak stjórnarmeirihlutans og Hreyfingarinnar með þetta mál. Nú er þetta mál í þeim búningi að allt eins hefði verið hægt að leggja það fram í október. Hefur hv. þingmaður einhverja hugmynd um hvernig á því stendur að mál sem út af fyrir sig hefði verið hægt að bera fram á fyrstu dögum haustþings kemur fram núna?

Þetta segi ég vegna þess að lengi vel var í nefndinni talað um það að áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi ætti að fara fram einhvers konar lögfræðilegt álagspróf eða einhver slík vinna en frá því var horfið mjög skyndilega nú í febrúar. Ég vildi aðeins biðja hv. þingmann um að velta vöngum með mér yfir þeim þætti.