140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:22]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Þetta hefur um margt verið áhugaverð umræða í dag og það sem skín í gegn í þessu máli, sé það skoðað frá því að ríkisstjórnin fór af stað með það, er vandræðagangurinn frá A til Ö.

Nú er það svo að stjórnarskráin er eitt mikilvægasta plagg hverrar þjóðar. Stjórnarskráin er grunnurinn, allt annað byggist á þeim grunni sem stjórnarskráin er. Ef eitthvert mál á að reyna að vinna í sem mestri sátt og á sem breiðustum grunni þá eru það mál sem tengjast breytingum á stjórnarskránni. Það er einmitt grunnurinn undir því að ná fram breytingum á stjórnarskrá að gera það í breiðri sátt því að það er ekki eitthvað sem er gert á einu kjörtímabili.

Það sem við höfum hins vegar séð í aðdraganda þessa máls er eintómur vandræðagangur. Stjórnlagaráði — og vert er að hafa í huga að búið var að dæma kosningu þess ógilda og kosningaþátttaka var líka mjög lítil — er veitt umboð af knöppum meiri hluta Alþingis á þeirri forsendu að það hafi nánast verið rétt kjörið, að Hæstiréttur hafi dæmt einhver formsatriði ógild og annað því um líkt. Það var á þeim tímapunkti sem rangt skref var stigið í þessu máli. Eðlilegast hefði verið að taka málið upp og undirbúa það á nýjan leik, fara af stað með það aftur. En það mátti ekki og það var þá sem þetta varð fyrst pólitískt mál. Það var þá sem ríkisstjórnin ákvað að gera þetta að pólitísku máli.

Þess vegna horfum við upp á það að eitt mikilvægasta skjal hverrar þjóðar, sjálf stjórnarskráin, er orðin að pólitísku þrætuefni. Sú tillaga sem hér liggur fyrir ýtir svo enn frekar undir það að gera þetta að pólitísku þrætumáli fremur en að taka það upp úr þeim farvegi og leita að breiðari sátt.

Um tillöguna sjálfa og þær spurningar og hugmyndir sem þar eru lagðar fram má ýmislegt segja og hefur margt af því verið rakið ágætlega í máli þingmanna. Margir hafa gert miklar athugasemdir við 2. lið, sem snýr að efnislegum spurningum um nýja stjórnarskrá, orðalag þeirra, framsetningu og hver raunverulegur tilgangur sé að baki þeim og hvort ekki hefði verið eðlilegra að spyrja jafnvel einhverra annarra spurninga.

Í fyrstu spurningunni er spurt að því hvort viðkomandi sé fylgjandi því að náttúruauðlindir verði lýstar þjóðareign. Þá hlýtur maður fyrst að spyrja sig, og margir hafa bent á það: Hvað er náttúruauðlind? Eru tún landsins ekki náttúruauðlind? Er fjalllendi ekki náttúruauðlind? Er allt rennandi vatn ekki náttúruauðlind? Erum við þá að tala um að verði þetta samþykkt, og sé það vilji þeirra sem leggja þessar spurningar fram, beri að þjóðnýta öll tún í landinu og þjóðnýta allt fjalllendi í landinu? Eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir benti á áðan þá er í tillögum stjórnlagaráðsins sjálfs talað um að náttúruauðlindir séu í þjóðareign að undanskildum þeim sem eru varðar eignarrétti.

Af hverju er verið að spyrja að því hvort náttúruauðlindir eigi að vera þjóðareign án þess að skilgreina það frekar að verið sé að fjalla um náttúruauðlindir að undanskildum þeim sem séu varðar eignarrétti? Þá hlýtur maður að spyrja sig að því hvort flutningsmenn þessarar tillögu séu að velta því fyrir sér að gera allar náttúruauðlindir, þar með talið öll tún landsins, þar með talið allt fjalllendi landsins, að þjóðareign. Það getur ekkert annað vakað fyrir þeim sem leggja þessa spurningu fram. Þá eru náttúrlega, eins og kom fram fyrr í umræðunni, deilumál á borð við þjóðlendumálin úr sögunni því að þá er verið að gera allt landið að þjóðareign og það er kannski vilji þeirra flutningsmanna sem bera þessa tillögu upp.

Síðan er það þriðja spurningin um persónukjör í kosningum til Alþingis, hvort viðkomandi vilji að það verði heimilað í meira mæli en nú er. Bent hefur verið á það í umræðunni að orðalag á þessari spurningu sé mjög sérstakt „í meira mæli en nú er“. Það er ekki persónukjör í dag þannig að þessi spurning er undarlega orðuð og vandséð hverju ætlunin er að ná fram með því að spyrja þannig.

Síðan er það fjórða spurningin um ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar af landinu vegi jafnt. Til þess hefur verið ríkur vilji að bæta stöðu hinna dreifðu byggða. Sá er tilgangurinn með ólíku atkvæðavægi. Þetta er með sama hætti gert víða annars staðar í heiminum, til að mynda í Bandaríkjunum þar sem Washington hefur til dæmis enga þingmenn. Innan Evrópusambandsins er þessu beitt en reyndar eru kröfur uppi um að jafna atkvæðavægið og gera vægi smárra ríkja mun minna en það er í dag og er það einmitt að kröfu Þjóðverja og stærri ríkja innan Evrópusambandsins. Maður hlýtur að spyrja sig að því, af því að maður sér að flutningsmenn þessarar þingsályktunartillögu eru margir þeir sömu og vilja að þjóðin gangi í Evrópusambandið, hvort það verði líka baráttumál þeirra innan Evrópusambandsins að jafna vægi atkvæði. Það mundi þá gera það að verkum að Ísland næði ekki einum Evrópuþingmanni. Þá gæti ekki hver sem er af þeim sem sitja hér á Alþingi orðið Evrópuþingmaður.

Maður veltir því fyrir sér hvort ekki hefði verið skynsamlegra, því að mikið er talað um búsetujafnrétti og byggðajafnrétti í þjóðfélaginu í dag og margir hafa áhyggjur af því að hinar dreifðu byggðir séu að veikjast mjög mikið, að spyrja þjóðina að því hvort vilji væri til þess að efla byggðajafnrétti og búsetujafnrétti og hvort vilji væri til að setja ákvæði inn í stjórnarskrá hvað það snertir.

Það eru fleiri spurningar sem maður veltir fyrir sér. Til að mynda komu fram, varðandi atkvæðagreiðslu um afbrigði, ákveðnar athugasemdir við þessa þingsályktunartillögu frá hæstv. innanríkisráðherra sem snúa að því að ákveðið hlutfall þjóðarinnar getur ekki kallað eftir kosningu um fjárhagslegar skuldbindingar eins og til að mynda Icesave-samningana. Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort ekki væri eðlilegt að spyrja þjóðina að því hvort hún vilji ekki hafa vald til að geta kallað eftir kosningu um samninga eins og Icesave-samningana sem þjóðin hafnaði í þjóðaratkvæðagreiðslu á sínum tíma.

Maður hlýtur líka að velta því fyrir sér hvort ekki væri eðlilegt, af því að stjórnarskráin er grunnurinn að fullveldi landsins, að þjóðin yrði spurð að því hvort hún vildi jafnvel styrkja enn frekar fullveldið í stjórnarskránni. Nú hefur til dæmis verið fjallað um, meðal annars í utanríkismálanefnd í morgun og í þingsal í sérstökum umræðum, skýrslu í Noregi um EES-samninginn og það fullveldisafsal sem hann felur í sér. Margir í Noregi hafa áhyggjur af því fullveldisafsali. Hæstv. utanríkisráðherra hefur komið inn á það í þingræðum að hann telji að EES-samningurinn feli í sér meira fullveldisafsal en stjórnarskrá raunverulega leyfir. Viljum við ekki, þjóðin, styrkja frekar þetta fullveldi? Viljum við ekki girða enn frekar fyrir þetta fullveldisafsal? Væri ekki eðlilegt að spyrja þjóðina að því hvort hún vildi styrkja fullveldið innan stjórnarskrárinnar fremur en hið gagnstæða? Ég er sannfærður um að það er ríkur vilji meðal íslensku þjóðarinnar, rétt eins og norsku þjóðarinnar, til að styrkja fullveldið í stjórnarskránni. Maður veltir því fyrir sér, þegar verið er að fjalla um stjórnarskrána og þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðna þætti sem ættu að fara í stjórnarskrá, hvort þetta sé ekki ein af lykilspurningunum og hvort þetta ætti ekki að vera efsta spurningin á blaði, hvort þjóðin vilji ekki styrkja fullveldið í stjórnarskránni og jafnvel girða fyrir allt fullveldisafsal innan hennar.

Síðan er hægt að fjalla um fleira. Til að mynda hafa komið fram breytingartillögur við þetta mál sem snúa að aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu og fleira. (Forseti hringir.) Ég mun koma inn á það í ræðu síðar við þessa umræðu.