140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt, ríkisstjórnin hefur gert þetta að pólitísku máli eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Það gerðist þegar kosningin til stjórnlagaþings var dæmd ógild í Hæstarétti og ríkisstjórnin ákvað með pólitískri kosningu að skipa þá einstaklinga í stjórnlagaráð sem kjörnir voru til stjórnlagaþings.

Varðandi náttúruauðlindir í þjóðareign hlýtur að vakna spurningin: Hvað liggur þarna að baki? eins og hv. þingmaður kom inn á. Það getur ekkert annað legið að baki en að menn séu ekki ánægðir með þá tillögu sem kom fram hjá stjórnlagaráðinu sjálfu og sneri að því að auðlindir væru í þjóðareign að undanskildum þeim sem væru varðar eignarrétti. Það hlýtur að vaka fyrir mönnum að reyna að ná því í gegn með einhverjum hætti, með orðalagi sem er loðið og ekki vel skilgreint, að allar auðlindir, hvort sem það eru tún, (Forseti hringir.) úthagar eða annað, séu þjóðareign. Þá er auðvitað þjóðlendumálið úr sögunni (Forseti hringir.) því að þá er allt landið þjóðareign.