140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:36]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta vekur nefnilega dálítið margar spurningar í huga manns. Eitt af fyrstu verkum hæstv. ríkisstjórnar þegar hún tók við á miðju ári 2009 var að lýsa því yfir að nú yrði látið staðar numið við alla vinnu í sambandi við þjóðlendur, málum sem komin væru eitthvað á veg yrði lokið en síðan væri hugmyndin að ljúka þessu. Ástæðan var að þetta væri mikið ágreiningsefni, þarna væri mögulega verið að vega að hagsmunum bænda og landeigenda. Þess vegna er þeim mun sérkennilegra að lögð sé fram spurning sem ætlunin var að Alþingi mundi samþykkja þar sem spurt væri hvort það ætti að lýsa, án fyrirvara, allar náttúruauðlindir þjóðareign.

Það er gríðarlega stórt og pólitískt mál sem þarna er fitjað upp á. Að mínu mati er verið að brjóta hér í blað. Þetta er gömul og þekkt hugmynd. Eins og ég rakti er hún frá gamla Alþýðuflokknum en ég hélt satt að segja að þessari umræðu hefði verið lokið fyrir nokkrum áratugum.