140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:41]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það var einmitt þetta atriði í umfjöllun stjórnlagaráðsins sem hv. þingmaður kom inn á, hvernig þetta stjórnlagaráð var kosið og skipað og hversu fáir fulltrúar komu af landsbyggðinni. Kannski endurspeglast það í þeim spurningum sem hér eru hvað þær áherslur varðar. Ég ítreka þess vegna og tel að í raun eigi að spyrja: Viljum við jafnrétti óháð búsetu?

Ég er mjög hrifinn af þjóðaratkvæðagreiðslum, vil hafa þær í sem flestum málum og tel að við eigum að skjóta sem flestum málum sem skipta máli til þjóðarinnar, sérstaklega ef þjóðin vill fá að taka þátt í ákvarðanatökunni. Ákveðinn fjöldi fólks ætti að geta óskað eftir þjóðaratkvæðagreiðslu og sömuleiðis ákveðinn fjöldi þingmanna.

Það er mjög óskýrt (Forseti hringir.) að hve miklu leyti megi krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðréttarlegar skuldbindingar. Ég tel einmitt allra mikilvægast að við getum haft þjóðaratkvæðagreiðslu um þjóðréttarlegar skuldbindingar eða ákvarðanir.