140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:46]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hjartanlega sammála þingmanninum í því að spurningarnar á blaðinu vinstra megin við dálkana já, nei og tek ekki afstöðu, eru mun hættulegri en hitt með hvaða hætti kjósandinn greiðir atkvæði vegna þess að þær eru frekar ónákvæmar og munu ekki að mínu mati, a.m.k. nokkrar þeirra, skila niðurstöðu sem hægt er að túlka á nokkurn veg.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji að með þeim spurningum sem hér eru fram settar séu tillögumenn að skauta fram hjá stóru álitamáli, t.d. um stöðu forsetans og þann ágreining sem þegar er uppi m.a. hjá núverandi forseta Íslands og skoðun hans á því frumvarpi eða drögum að stjórnarskrá sem fyrir liggja frá stjórnlagaráði og að hér sé verið að taka fyrir minni mál en skauta kannski fram hjá stóru máli eins og stöðu forseta Íslands í íslenskri stjórnskipan.