140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þessi eina mínúta dugar skammt til þess að ræða efnislega um frumvarpið en ég er að gera tilraun til þess með því að fara í andsvör vegna þess að þetta hefur ekkert verið rætt efnislega.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um auðlind, hvernig hann skilur auðlind í náttúru Íslands. Til dæmis rafsegulbylgjur og tíðnisvið þeirra sem er að verða mikil auðlind og verður gífurleg auðlind í framtíðinni, fellur það undir þetta ákvæði? Og hver á það þá? Er það strax í byrjun eign ríkisins, ekki þjóðarinnar? Hv. þingmaður nefndi bújarðir, grasið og annað slíkt, er einhvers staðar til auðlind sem ekki er búin til af mannauði?

Sjávarútvegurinn kostaði mannslíf á hverju einasta ári. Það var ekki fyrr en mannauðurinn gerði skipin svona örugg. Fallvötnin voru til bölvunar í hverri sveit. Það var ekki fyrr en mannauðurinn gerði þau að auðlind. Er ekki í rauninni á bak við allar þessar auðlindir mannauðurinn sem við erum því miður (Forseti hringir.) að flytja út núna?