140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[21:52]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Það vantar einmitt skilgreininguna á því hvað er náttúruauðlind. Um leið og spurt er svona opinnar spurningar eins og hvort allar náttúruauðlindir eigi að vera í þjóðareign verður að skilgreina hvað það felur í sér. Hv. þingmaður nefndi rafsegulbylgjur. Hann nefndi tún, fjalllendi og fleira. Það verður að liggja alveg ljóst fyrir hvað þarna er að baki. Er ætlunin að kanna möguleikann á því hvort þjóðin sé því fylgjandi að allt fjalllendi og öll tún verði þjóðareign? Það hlýtur að vera. Af hverju er verið að spyrja spurningar sem þegar er fram komin í tillögum stjórnlagaráðs? Þetta hefur komið fram hér í umræðunni í dag. Margir hafa velt þessum spurningum fyrir sér. Ég hallast reyndar að því að ástæðan sé fyrst og fremst sú að þetta er hroðvirknislega unnið og jafnvel (Forseti hringir.) verið að reyna að ná einhverju pólitísku samkomulagi við Hreyfinguna eða aðra vegna þess að þeir hafi gert kröfur um að það eigi að fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þessi mál.