140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:04]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Hv. þingmaður fór í rauninni yfir hverja og eina spurningu og dró það mjög vel upp sem hefur verið ríkjandi í umræðunni hér í allan dag, þ.e. hversu sérstakt orðalag er á þessum spurningum og að þær séu ónákvæmar, þær standist á engan hátt þær kröfur sem gerður eru þegar settar eru fram svona spurningar. Hv. þingmaður kom meðal annars inn á það að þeir sem hefðu samið þessar spurningar hefðu að öllum líkindum ekki skorað sérstaklega hátt ef þeir hefðu verið í námi í félagsvísindadeild HÍ þar sem þetta er meðal annars kennt.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann — ég ber mikla virðingu fyrir stjórnarskrá Íslands, hún er grundvallarplagg, það byggir allt á stjórnarskrá Íslands og þetta er grunnur hverrar þjóðar. Breytingar á stjórnarskrá er eitthvað sem verður að leggja mikla og faglega vinnu í og reyna að ná sem breiðastri sátt um. Þetta á ekki að vera pólitískt átakamál og á að reyna að forðast að setja það í þann farveg að þetta verði pólitískt átakamál.

Við erum að horfa upp á að fá spurningar eins og þessar sem eru hroðvirknislega unnar. Hvað finnst hv. þingmanni um það að við skulum vera með stjórnarskrá Íslands í umræðu með þessum hætti, með spurningum sem eru svona orðaðar, á loðinn og opinn hátt? Finnst hv. þingmanni það bera vott um mikla virðingu fyrir stjórnarskrá Íslands og hvað telur hv. þingmaður að skynsamlegast væri að gera miðað við þær ógöngur sem ríkisstjórnin er búin að koma þessu mikilvægasta máli þjóðarinnar í?