140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:09]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að hafa mismælt mig eitthvað, ég held að ég hafi fjallað um það að stjórnarskráin væri eitt mikilvægasta plagg þjóðarinnar og væri grunnurinn að öllu. Því væri mjög mikilvægt þegar verið væri að vinna breytingar á stjórnarskrá að þar væru ekki hroðvirknisleg vinnubrögð, eins og einkennir þetta plagg, og leitað yrði sem víðtækastrar sáttar um vinnuferli, um tillögur o.fl. Breytingar á stjórnarskrá er eitthvað sem samkvæmt stjórnarskrá er ekki gert nema með samþykki tveggja þinga með kosningum á milli. Þess vegna er mjög mikilvægt að unnið sé á víðum grunni með mikilli sátt og aðkomu sem flestra en ekki svona þröngt eins og hæstv. ríkisstjórn vinnur þetta.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í annað. Það hefur komið fram breytingartillaga við þessa tillögu, um Evrópusambandsumsóknina og það aðlögunarferli sem þar er í gangi. Hvort telur hv. þingmaður að væri mikilvægara að spyrja þjóðina (Forseti hringir.) þeirra spurninga sem hér eru eða hvort þjóðin mundi vilja hætta þessu (Forseti hringir.) aðlögunarferli sem ríkisstjórnin einarðlega er að reyna að (Forseti hringir.) halda áfram dag hvern?