140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:10]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, auðvitað er mikilvægt að fá að vita afstöðu þjóðarinnar til þeirrar vegferðar sem við erum á, að vera í aðlögun að Evrópusambandinu. En ég tel svo sem í sjálfu sér alveg fullljóst að menn viti það að ég tel að við eigum að draga umsóknina til baka og hef lagt fram þingmál þess efnis. Það var lagt upp hér af hálfu okkar sjálfstæðismanna í umræðunni um Evrópusambandsmálið á sínum tíma þegar tillaga ríkisstjórnarflokkanna var samþykkt að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla fyrir fram um það mál. Ég tel að það hefði einfaldlega verið betur hefðum við í þinginu haft lukku eða borið gæfu til þess að samþykkja þá tillögu, þá værum við ekki endalaust að velta okkur upp úr þessu feigðarflani sem ríkisstjórnin er að stýra okkur inn í undir undarlegri forustu Vinstri grænna, sem ég hélt nú (Forseti hringir.) fyrir fram að væru andvígir því að við gengjum í Evrópusambandið.