140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur fyrir ágæta leiðsögn í félagsfræðum. Þetta eru orð í tíma töluð. Nú er spurningin hvort hv. þingmaður sé mér sammála um, þar sem málið gengur væntanlega til nefndar aftur, að nefndin sem reyndar flytur málið sjálf, þ.e. meiri hluti hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, fái til sín færustu sérfræðinga úr háskólanum um einmitt þetta atriði og fái þá til að leiðbeina sér í því að orða þessar spurningar þannig að þær séu tækar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Er það ekki nokkuð sem við gætum sæst á að yrði gert?

Svo er spurning hvort eigi að spyrja að því hvort menn vilji breyta stjórnarskránni yfirleitt. Ég geri ráð fyrir að flestir mundu vilja gera einhverjar breytingar, þar á meðal ég, en spurning hvort menn vilji koma með eitt stykki nýja stjórnarskrá með öllum þeim óróleika sem því fylgir vegna þess að ný stjórnarskrá þýðir óvissu í öllum lagalegum atriðum næstu 10, 15, 20 árin, sérstaklega hvað varðar mannréttindi. Þau geta breyst, allir hæstaréttardómar verða ógildir og það þarf nýja. Hvernig metur hv. þingmaður þá stöðu ofan á allt efnahagslegt óöryggi sem fylgir kreppunni að menn skuli vera að búa til lagalegt óöryggi ofan á allt hitt? Væri ekki betra að bíða með þetta í svo sem fimm eða tíu ár og fara þá í gegnum breytingar á stjórnarskránni?