140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:32]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það ákvæði sem hv. þingmaður nefndi á eftir að valda lögfræðingum miklum heilabrotum. Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá má breyta kirkjuskipun með lögum en það á að setja í þjóðaratkvæðagreiðslu sem er bindandi. Nú erum við með þingsályktunartillögu en ekki lög og þingsályktunartillagan er send í atkvæðagreiðslu, eða það frumvarp sem liggur að baki — þetta er allt mjög flókið. Þingsályktunartillagan felst í því að þjóðin greiði atkvæði óbindandi um nýja stjórnarskrá, það gerist alls ekki neitt.

Væntanlega kemur tillagan svo inn í þingið í haust, verður þá rædd og flutt um hana frumvarp, það er að segja ef þetta verður samþykkt. Ef þetta verður samþykkt mun koma fram nýtt frumvarp og það verður væntanlega samþykkt sem síðustu lög frá Alþingi. En um leið og það er samþykkt þarf kirkjuskipunin að fara í sérstaka atkvæðagreiðslu, hvort breyta megi kirkjuskipuninni. Á sama tíma gerist ekkert með hinn hluta stjórnarskrárinnar nema að þegar búið er að kjósa upp á nýtt þá kemur þingið saman og samþykkir hana eða hafnar henni og þá verður hún stjórnarskrá. En kirkjuskipunin verður bindandi um leið og búið er að samþykkja þessi lög frá Alþingi sem síðustu lög fyrir kosningar og það verður dálítið skrýtið þegar kosningar um kirkjuskipun detta ofan í kosningar um nýtt þing, um nýja þingmenn. Þetta á eftir að valda lögfræðingum miklum skrifum og hugleiðingum og um þetta verður mikið ritað.