140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:37]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðu hans. Það efast enginn um það, miðað við það hvernig hv. þingmaður fór yfir þessu mál, að hann hefur kynnt sér allt sem tengist stjórnarskránni mjög mikið, pælt mjög mikið í þessum málum og mikil hugsun liggur að baki mörgu því sem kom fram í hans máli.

Eins og hv. þingmaður kom inn á í andsvari sínu áðan þá er það fyrst og fremst lítilsvirðing við stjórnarskrána að við skulum vera hér með hroðvirknislega unna tillögu, óvandaðar spurningar og aðdragandann eins og hann var. Þetta er lítilsvirðing við stjórnarskrána og þá mikilvægu stöðu sem það plagg hefur hjá hverri þjóð.

Mig langar að spyrja hv. þingmann að því hvað hann telji að búi að baki þessum hroðvirknislegu vinnubrögðum. Hvað býr að baki því hjá ríkisstjórnarmeirihlutanum að keyra þessi mál í gegn af svo miklu offorsi, að reyna ekki með nokkrum hætti að vinna þetta á breiðari grunni, vinna þetta faglega og vinna málið þannig að um það geti skapast breið sátt og samstaða? Hvað býr þarna að baki?

Mig langar einnig að spyrja hv. þingmann að því hvort hann telji ekki, varðandi þær spurningar sem þarna er verið að spyrja, að það væri jafnvel meiri áhugi hjá þjóðinni fyrir því að greiða atkvæði um það hvort hún vildi halda áfram aðlögunarferlinu að Evrópusambandinu frekar en um þær spurningar sem þarna eru. Væri ekki sjálfsagt að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunarferlið að Evrópusambandinu í sumar fremur en um þessar loðnu spurningar og hroðvirknislegu sem þessi þingsályktunartillaga felur í sér?