140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir lofið og eins fyrir góðar spurningar. Ég skilaði inn umsögn til nefndarinnar sem fjallar um þetta mál, til hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis, og ég held að það sé í fyrsta skipti sem þingmaður skilar umsögn inn til nefndar. Hún er um 38 síður og ég fer í gegnum allar greinarnar sem um er að ræða. Ég hef lagt í þetta mikla vinnu en það er spurning hvort eitthvað vitrænt komi út úr því, ég veit það ekki, það er annarra að meta það.

Hv. þingmaður sagði: Af hverju eru menn að keyra þetta í gegn? Ég held að þegar byltingin var úti á Austurvelli og Hreyfingin varð til hafi menn reynt að leita einhverra ástæðna fyrir hruninu. Einhverjir hafa komist að þeirri niðurstöðu að það væri stjórnarskráin, að það hafi eitthvað verið að henni, sem er náttúrlega alrangt.

Menn vonast til að það sé einhver frelsun í nýrri stjórnarskrá. Þá komi bara nýtt þjóðfélag og allt verði nýtt og allt glimrandi gott. Enn eimir eftir af þeirri skoðun í huga fólks, t.d. hjá Hreyfingunni sem ekki er viðstödd þessa umræðu um stjórnarskrána sem er þeirra elskaðasta barn. Ég held að sú hugsun sé á bak við þetta, að menn segi: Við breytum stjórnarskránni og allt verður gott, útrásarvíkingarnir fá sína refsingu og Austurvallarævintýrið fær sinn góða endi og himnaríki kemur á jörð.

Þetta er náttúrlega bara útópía og ég er sammála hv. þingmanni. Auðvitað ættum við núna að fara að taka til höndum og koma af stað atvinnu í landinu, reyna að laga skuldastöðu heimilanna og hætta að sjálfsögðu þessari umsókn um aðild að Evrópusambandinu.