140. löggjafarþing — 77. fundur,  27. mars 2012.

ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga.

636. mál
[22:51]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir ræðuna. Já, það eru margar spurningar sem vakna þegar farið er yfir þessi mál og spurningarnar taldar vera mjög óvandaðar svo ekki sé meira sagt. Nú berast af því fréttir að hópur þingmanna úr stjórnarliðinu sé að semja breytingartillögur við þá tillögu sem liggur fyrir. Ég velti því fyrir mér, vegna þess að þessi þingsályktunartillaga fékk ekki góða útreið hjá landskjörstjórn á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í morgun, hvernig það verður þá þegar þessar nýju tillögur koma fyrir þingið. Landskjörstjórn á nefnilega að vera þinginu til ráðgjafar varðandi spurningarnar sem eru lagðar fyrir. Ég velti því fyrir mér, ef verið er að vinna breytingartillöguplagg að þessu máli, hvenær það kemst þá á dagskrá þingsins eða hvort það kemur órætt inn í síðari umræðu með þingsályktunartillögunni.

Eins og þingmaðurinn eflaust veit hef ég nú þegar lagt fram breytingartillögu við þessa þingsályktunartillögu, en hún er sú að jafnframt verði spurt að því í þjóðaratkvæðagreiðslu hvort halda eigi áfram með viðræðurnar við Evrópusambandið. Finnst mér sú tillaga eiga rétt á sér í þessari umræðu úr því að verið er að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu. Í því sambandi langar mig að spyrja þingmanninn: Finnst henni ekki tímabært að fara með þá þjóðaratkvæðagreiðslu af stað? Þegar greidd voru atkvæði um þingsályktunartillöguna, hvort leggja ætti inn umsóknina, var jafnframt lögð fram breytingartillaga við þá tillögu sem gekk út á það að þjóðin ætti að fá að segja álit sitt áður en lagt yrði af stað í það ferli. Atkvæðagreiðslan í þinginu fór þannig að 32 sögðu nei, 30 sögðu já og einn sat hjá þannig að það féll raunverulega með eins þingmanns meiri hluta. Er ekki tímabært að þingið taki afstöðu til þessa máls upp á nýtt?